KA-menn unnu ÍBV og eru í góðum málum
KA vann mikilvægan sigur á ÍBV, 29:27, í Olísdeild Íslandsmótsins í handbolta í dag í KA-heimilinu. Sigurinn var stórt skref á leiðinni að úrslitakeppninni.
Leikurinn var í jafnvægi lengi framan af en með góðum spretti náðu KA-menn fjögurra marka forskoti, 14:10, eftir tæpar 23 mínútur. Tveimur mörkum munaði í hálfleik, 17:15.
Eyjamenn jöfnuðu, 20:20, snemma í seinni hálfleik, KA náði aftur yfirhöndinni en gestirnir komust yfir á ný þegar tvær mínútur voru eftir og hálfri betur, 27:26.
Þá tóku KA-menn til sinna ráða; Satchwell lokaði markinu og Einar Birgir Stefánsson gerði þrjú síðustu mörkin - öll eftir sendingu frá Jóni Heiðari Sigurðssyni! Magnaður endasprettur.
Árni Bragi Eyjólfsson átti stórleik fyrir KA og skoraði níu mörk, Jóhann Geir Sævarsson, Jón Heiðar Sigurðsson, Einar Birgir Stefánsson og Áki Egilsnes gerðu 4 hver, Patrekur Stefánsson gerði 2 mörk og þeir Sigþór Gunnar Jónsson og Allan Nordberg 1 hvor. Nicholas Satchwell varði 16 skot af 41, sem er 39% markvarsla.
Smelltu hér til að skoða alla tölfræði úr leiknum.