KA hafði ekki roð við sterku liði Vals
Valur vann öruggan sigur á KA, 37:29, í Meistarakeppni Handknattleikssambands Íslands í gær. Leikið var í Origo höll Vals að Hlíðarenda. Valsmenn, þrefaldir meistarar á síðasta keppnistímabili, eru því Meistarar meistaranna og ljóst að liðið mætir gríðarlega sterkt til leiks í vetur.
„Þetta var rosalega kaflaskipt hjá okkur, það var margt gott í okkar leik en síðan var annað sem var alls ekki gott,“ Jónatan Magnússon, þjálfari KA, í viðtali við Vísi eftir leikinn í gær.
„Mér fannst við vera betri sóknarlega heldur en varnarlega, við vorum í miklum vandræðum í vörninni eins og sást því við fengum á okkur mikið af mörkum eftir seinni bylgju og hraða miðju. Við auðvitað lögðum ekki upp með því en það gekk illa að ráða við það,“ hélt Jónatan áfram.
Jónatan var sammála því að seinni bylgja Valsmanna hafi verið þeirra sterkasta vopn í leiknum. „Já klárlega, í þessum leik þá var hún það, hún gekk mjög vel upp hjá þeim og við náðum ekki að stöðva það og það var kannski það sem skildi á milli liðanna.“
Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 7, Arnór Ísak Haddsson 6, Allan Norðberg 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Dagur Gautason 2, Gauti Gunnarsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Dagur Árni Heimisson 1.
Varin skot: Nicholas Satchwell 7, Bruno Bernat 5.