KA-menn steinlágu – Þórsarar unnu
![](/static/news/lg/ka-breidablik-0g7a3637.jpg)
KA mátti þola fimm marka ósigur þegar liðið tók á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í riðli 2 í A-deild Lengjubikars karla í dag. Strax á eftir leik KA og Breiðabliks mættust Þór og HK og þar höfðu Þórsarar 4-1 sigur.
Breiðablik tók forystuna eftir 18 mínútur með sjálfsmarki leikmanns KA og Arnór Gauti Jónsson bætti við öðru marki eftir tæplega hálftíma leik. Breiðablik með tveggja marka forskot í leikhléi.
Blikar bættu svo við þremur mörkum á tíu mínútna kafla í seinni hálfleik, fyrst skoraði Óli Valur Ómarsson á 61. mínútu, þá Davíð Ingvarsson á 68. mínútu og Aron Bjarnason skoraði fimmta mark gestanna á 70. mínútu.
Fram er í efsta sæti riðilsins með sex stig, en Breiðablik, Fylkir og KA eru öll með fjögur stig. Fylkir á leik til góða á hin liðin.
- KA - Breiðablik 0-5 (0-2)
Leikskýrslan
Staðan í riðlinum
Þórsarar einum fleiri í 60 mínútur
Þórsarar fengu HK í heimsókn í Bogann síðdegis og unnu þriggja marka sigur, 4-1. Öll mörkin komu í seinni hálfleiknum. Þórsarar spiluðu einum fleiri í 60 mínútur eftir að Brynjar Snær Pálsson fékk að líta rauða spjaldið á 30. mínútu. Hvorugu liðinu tókst þó að skora í fyrri hálfleiknum.
Eftir tæplega stundarfjórðung í seinni hálfleiknum kom Atli Þór Sindrason Þór í 1-0, en einum færri náðu gestirnir úr Kópavoginum að jafna aðeins mínútu síðar. Ingimar Arnar Kristjánsson kom Þór í 3-1 með mörkum á 70. og 75. mínútu, en skömmu síðar leit Sandor Matus, aðstoðarþjálfari HK og fyrrum leikmaður Þórs, rauða spjaldið og Hermann Hreiðarsson það gula. Vilhelm Ottó Biering Ottósson bætti svo við fjórða marki Þórs á 2. mínútu viðbótartíma.
- Þór - HK 4-1 (0-0)
Leikskýrslan
Staðan í riðlinum
Þórsarar eru þar með komnir með þrjú stig eftir tvo leiki í riðli 3. Afturelding er í efsta sæti með sex stig, þá ÍR með þrjú eins og Þór.