Fara í efni
Íþróttir

Jólatrésskemmtun í dag í Kjarnaskógi

Frá jólatrésskemmtuninni í Kjarnaskógi á síðasta ári.

Jólatrésskemmtun verður haldin í Kjarnaskógi í dag, sunnudag 17. desember. „Aðgangur að sjálfsögðu ókeypis eins og alltaf en þið verðið að klæðast eftir aðstæðum, í desember er allra veðra von á Akureyri og besta veðrið í Kjarna,“ segir í tilkynningu.

Tvennum sögum fer af því hvar jólasveinarnir búa en Skógræktarfélag Eyfirðinga heldur því fram að heimili þeirra sé í Kjarnaskógi, rétt hjá ærslabelgnum á Birkivelli. Ekki er ástæða til að mótmæla því; þeim sem þetta skrifar hefur aldrei verið boðið í heimsókn til Grýlu og þeirra sveina og hefur ekki hugmynd hvert heimilisfangið er.

Það er Skógræktarfélagið sem heldur jólatrésskemmtunina í dag í samstarfi við bræðurna Kjötkrók og Hurðaskelli, og Félag eldri borgara á Akureyri. Dansað verður í kring um jólatréð við grillhúsið á Birkivelli kl. 16. 

„Á vígsludegi Birkivallar árið 2017 var rauðgrenijólatrénu fína plantað gagngert til að dansa í kring um það í fyllingu tímans. Því hefur nú vaxið fiskur um hrygg og tímabært að það fái að sinni hlutverki sínu,“ segir í tilkynningu frá Skógræktarfélaginu.
 
  • Best er að leggja á bílastæðinu neðan við strandblakvellina en þaðan verðar skilti sem vísa í rétta átt að leikvellinum á Birkivelli. Á korti Google: https://maps.app.goo.gl/M4xxByyjyDKq5hKHA

Í tilkynningu Skógræktarfélagsins segir ennfremur:

  • Dansað verður í kring um jólatréð undir styrkri leiðsögn reynslubolta í jóladansi. Hurðaskellir og Kjötkrókur líta við með karamellu og köngul í poka. Hvur veit nema þeir taki líka lagið og sýni nýju danssporin sem þeir undanfarið hafa æft af kappi upp við Súlurætur!
  • Birkibandið flytur svo fallegu jólalögin,hægt verður að ylja sér við eldinn, þiggja kakó, ketilkaffi og piparkökur.
  • Ungir sem aldnir hjartanlega velkomnir, eigum saman gleðilega skógarstund í aðdraganda jóla.

  • Fjölmargir nýta göngu, hjóla og skíðaleiðir í Kjarnaskógi sér til heilsubótar á degi hverjum. Við lítum á þetta sem venjulegan dag í skóginum okkar en langar að gera þessa jólatrésskemmtun að árlegum viðburði. Hvetjum foreldra, afa og ömmur og fleiri til að njóta útivistar með börnunum úr fjölskyldunni í aðdraganda jóla, staldra við stutta stund á Birkivelli, fá sér snúning kring um jólatréð og kankast aðeins á við jólasveinana á leið ykkar um skóginn.