Hulda lék best í dag, Andrea á sex yfir pari
Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar er með forystu í kvennaflokki eftir fyrsta dag Íslandsmótsins af fjórum á Jaðarsvelli. Hún lék í dag á 70 höggum, einu undir pari, tveir keppendur léku á 72 höggum og nokkrar eru skammt undan.
Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur, sem er með bestu forgjöf allra keppenda mótsins, lék á 74 höggum í dag, þremur yfir pari. Ragnhildur er með + 4,6 í forgjöf, Axel Bóasson úr Keili er með lægstu forgjöf í karlaflokki, + 4,4 og Aron Snær Júlíusson úr GKG er með + 4,3 í forgjöf.
Landsliðskonan Andrea Ýr Ásmundsdóttir lék best Akureyringanna þriggja í dag, hún fór 18 holurnar á 77 höggum, sex yfir pari. Stefanía Kristín Valgeirsdóttir lék á 82 höggum og Auður Bergrún Snorradóttir á 89.
Smellið hér til að sjá skor allra keppenda.
Andrea Ýr Ásmundsdóttir slær á Jaðarsvelli í dag. Hún lék best kylfinga úr GA í kvennaflokki. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.