Hulda Clara og Aron Íslandsmeistarar
Hulda Clara Gestsdóttir og Aron Snær Júlíusson urðu Íslandsmeistarar í golfi. Keppni lauk á Jaðarsvelli undir kvöld og meistararnir tóku við sigurlaunum sínum á sólbakaðri 18. flöt við klúbbhúsið að viðstöddu fjölmenni. Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, afhenti Íslandsbikarana og Björgvinsskálina sem nú var keppt um í fyrsta skipti. Hana hlaut Aron Snær einnig, sem sá áhugamaður sem lék best á mótinu.
Sigurvegararnir eru báðir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar.
Svo skemmtilega vill til að með góðum vilja mætti kalla Huldu Clöru fyrsta Íslandsmeistara Akureyringa í kvennaflokki! Það verður reyndar ekki gert hér en hún er sannarlega Akureyringur að ákveðnu leyti því foreldrar hennar eru báðir fæddir og uppaldir á Akureyri. Nánar um það síðar.
Hulda Clara sigraði sjö högga mun. Hún hafði mjög öruggt forskot fyrir síðasta daginn, og síðasti hringurinn var hennar versti á mótinu en það kom ekki að sök og sigurinn var aldrei í hættu. Hún lék á 77 höggum í dag og alls á 286 en Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur lék á 293 höggum.
Aron Snær Júlíusson lék á 72 höggum í dag og 278 alls. Akureyringurinn Lárus Ingi Antonsson lék geysilega vel í dag; langbest allra þeirra sem voru í toppbaráttunni, á 67 höggum, og skaust upp í þriðja sætið; þeir eru fjórir jafnir í 3. til 6. sæti, Lárus Ingi, Tumi Hrafn Kúld, GA, Birgir Björn Magnússon, Keili og Hlynur Bergsson, GKG. Þeir léku allir á 283 höggum, einu undir pari vallarins.
Smellið hér til að sjá skor allra keppenda í kvennaflokki.
Smellið hér til að sjá skor allra keppenda í karlaflokki.