Gullmark og Íslandsbikar!
Fyrirliðinn, Ragnhildur Kjartansdóttir, var hetja íshokkíliðs Skautafélags Akureyrar í kvöld þegar hún tryggði liðinu Íslandsmeistaratitilinn með marki í framlengingu í þriðja úrslitaleiknum gegn Fjölni.
Kvennalið SA í varð í kvöld Íslandsmeistari 16. skipti í röð! Liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri, ekkert var skorað í hefðbundnum leiktíma – 60 mínútum – og því var gripið til framlengingarinnar. Þar ræður svokallað gullmark; það lið sem skorar á undan vinnur leikinn.
Þegar ein mínúta og 33 sekúndur voru liðnar af framlengingunni réðust úrslitin. Ragnhildur komst skyndilega á auðan sjó, lék í átt að marki Fjölnis og þrumaði pökknum í netið. Fögnuður Akureyringar var gríðarlegur, eins og gefur að skilja, bæði innan svells og utan.
Innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, Skautafélag Akureyrar!
Ragnhildur Kjartansdóttir skorar sigurmarkið í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Sigurmarkinu fagnað í kvöld – og þar með Íslandsmeistaratitlinum, sem var í höfn um leið og pökkurinn söng í netinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Íslandsmeistaralið Skautafélags Akureyrar eftir sigurinn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.