Fara í efni
Íþróttir

Grófin fékk milljón fyrir Skógarbaðagolfið

Kjartan Sigurðsson, framkvæmdastjóri Skógarbaðanna, til vinstri, og Steindór Kr. Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar, afhentu Sonju Rún Sigríðardóttur frá Grófinni geðrækt styrk að upphæð ein milljón króna. Mynd: gagolf.is

Snilldarhugmyndin um góðgerðargolfhögg frá Skógarböðunum út á eyju sem búin var til sérstaklega fyrir þetta verkefni skammt frá landi gekk fullkomlega upp og fjöldi fólks sem lét vaða, sló eina kúlu eða fleiri, í þágu góðs málstaðar. Golfklúbbur Akureyrar og Skógarböðin afhentu í dag styrk að upphæð ein milljón króna til Grófarinnar - geðræktar.

Góðgerðargolfhöggið var í boði yfir mótsdaga Arctic Open, hins árlega miðnæturgolfmóts GA. Stillt var upp á teig við Skógarböðin og fólki gafst kostur á freista gæfunnar gefn vægu gjaldi, auk þess að eiga sjálft möguleika á verðlaunum. 


Eyjan góða séð frá Skógarböðunum. 

„Þetta tókst með eindæmum vel og skapaði skemmtilega upplifun og viðbót við golfmótið og heimsóknina í Skógarböðin. Okkur er sönn ánægja að afhenda Grófinni þennan styrk ásamt Skógarböðunum og vonum að hann komi sér vel við þeirra frábæra starf,“ segir Steindór Kr. Ragnarsson, framkvæmdastjóri GA, í frétt á vef klúbbsins

Sonja Rún Sigríðardóttir frá Grófinni tók á móti styrknum í dag í Skógarböðunum frá þeim Kjartani Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Skógarbaðanna, og Steindóri Ragnarssyni, framkvæmdastjóra GA.