Fara í efni
Íþróttir

Gísli Bragi fór „holu í höggi“ með skóflunni!

Gleðistund! Frá vinstri: Bjarni Þórhallsson, formaður Golfklúbbs Akureyrar, Skúli Kristinn Steindórsson og faðir hans, Steindór Kr. Ragnarsson framkvæmdastjóri klúbbsins, og Gísli Bragi Hjartarson, heiðursfélagi GA sem tók fyrstu skóflustunguna. Ljósmynd: Þórhallur Jónsson

Gísli Bragi Hjartarson, heiðursfélagi Golfklúbbs Akureyrar (GA), tók í gær fyrstu skóflustungu að viðbyggingu sem rísa mun vestan við klúbbhúsið að Jaðri. Í nýju byggingunni verður glæsileg inniaðstaða fyrir kylfinga. Klúbbfélagar hafa augljóslega mikinn áhuga á fyrirhuguðum framkvæmdum og fjölmenntu.

Fram kom í gær að lengi hefur verið horft til þess að koma allri starfsemi GA á einn stað. Steindór Kr. Ragnarsson, framkvæmdastjóri GA, sagði markmiðið að Jaðar verði hér eftir sem hingað til í fremstu röð golfsvæða á Íslandi og gegni jafnframt mikilvægu hlutverki þegar að ferðaþjónustu og útivist.

Eins og Akureyri.net greindi frá á dögunum hefur verið afmörkuð lóð fyrir hótel steinsnar frá golfskálanum og stækkun íbúðasvæðis meðfram Kjarnagötu. Smellið hér til að sjá þá frétt.

Steindór framkvæmdastjóri kynnti fyrirhugaðar framkvæmdir eftir skóflustunguna í gær:

  • Viðbyggingin verður 540 fermetrar að stærð og leysir af hólmi núverandi aðstöðu í íþróttahöllinni.
  • Innangengt verður í viðbygginguna úr golfskálanum í gegnum tengibyggingu.
  • Í viðbyggingunni verða 4 golfhermar með möguleika á tveimur til viðbótar.
  • Einnig verður 27 holu pútt- og vippsvæði sem er ríflega tvöfalt stærra en í núverandi aðstöðu.
  • Í kjallara er gert ráð fyrir geymslusvæði fyrir vélar og tæki, sem kemur þá í staðinn fyrir stækkun á vélaskemmu sem orðin er nauðsynleg vegna aukins tækjakosts.
  • Framkvæmdir hefjast strax í haust og gert er ráð fyrir að ný aðstaða verði opnuð 2024 og 2025.

Núverandi skáli að Jaðri er hvíta húsið, það dökka er nýbyggingin og grái flöturinn er tengibygging sem reist verður. Til vinstri er 18. flöt vallarins.

Öflugra íþrótta- og félagsstarf

Steindór sagði stefnt að öflugra íþrótta- og félagsstarfi með betri nýtingu á æfingaaðstöðu í viðbyggingu og á æfingasvæðinu Klöppum.

  • Aukinn sveigjanleiki yrði í að nýta aðstöðu til æfinga inni og úti allt árið.
  • Þannig verði hægt að fara fyrr út með æfingar og hafa æfingar lengur úti að haustinu eftir því sem veður leyfir.
  • Aðstaðan opnar möguleika á að halda æfingar á Akureyri fyrir landsliðshópa.
  • Gera má ráð fyrir að nýja aðstaðan laði að sér fleiri félaga en núverandi aðstaða í íþróttahöllinni.
  • Auknir möguleikar á að bjóða upp á golfkennslu, bæði fyrir einstaklinga og hópa.
  • Ótal möguleikar á viðburðum að ýmsum toga fyrir félaga og aðra gesti.

Bættur rekstur

  • Fjölgun notenda á aðstöðunni sem og fjölgun félagsmanna þar sem ný aðstaða rúmar fleiri við mun betri aðstæður.
  • Auknar tekjur af golfhermum – fjölgun golfherma auk aukinnar veltu út frá betri þjónustu og lengri opnunartíma.
  • Auknar tekjur af golfbúð – golfbúð verður opin allt árið.
  • Aukin velta í veitingasölu – veitingasalan verður þar með opin allt árið.
  • Auknir möguleikar að veita samstarfsaðilum fjölbreyttari þjónustu.