Fara í efni
Íþróttir

Brkovic verður áfram í herbúðum KA

Knattspyrnumaðurinn Dusan Brkovic verður áfram í herbúðum KA og leikur með liðinu næsta keppnistímabi. Þetta var tilkynnt á heimasíðu félagsins í morgun.

Brkovic, sem er 32 ára Serbi, lék mjög vel í vörn KA í sumar. „Dusan lék 20 leiki í deild og bikar í sumar og gerði í þeim eitt mark en KA liðið fékk næstfæst mörk á sig í Pepsi Max deildinni í sumar og þar munaði heldur betur um framlag Dusans,“ segir á heimasíðu KA.

Varnarmaðurinn verður fjarri góðu gamni í fyrstu þremur leikjum KA á Íslandsmótinu næsta sumar. Hann var rekinn af velli í þrígang á nýliðnu tímabili og var úrskurðaður í þriggja leikja bann í byrjun vikunnar af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ.

Brkovic á yfir 150 leiki að baki í Ungverjalandi og varð meðal annars ungverskur meistari árið 2014. Þá á Dusan um 70 leiki í efstu deild í Serbíu, segir á heimasíðu KA, en á leiktíðinni áður en hann kom til Akureyrar lék hann 25 leiki og skoraði þrjú mörk fyrir Diósgyöri VTK í Ungverjalandi.

„Það eru ákaflega jákvæðar fréttir að halda Dusan áfram innan okkar herbúða og væntum við áfram mikils af honum á næsta tímabili þar sem KA liðið stefnir á enn stærri hluti,“ segir á heimasíðu KA.