Fara í efni
Íþróttir

Boltar og pökkur á fleygiferð næstu daga

Það er nóg um að vera hjá hópíþróttaliðum okkar Akureyringa í dag og næstu daga. Blak í kvöld, handbolti og íshokkí á morgun, körfubolti og blak á föstudag og fótbolti, handbolti og körfubolti á laugardag.

Í stað þess að hita sérstaklega upp fyrir hvern leik með sér frétt birtum við hér yfirlit fyrir næstu daga, frá miðvikudegi til laugardags.

MIÐVIKUDAGUR – Blak

Karlalið KA í blaki tekur á móti Þrótti Fjarðabyggð í síðasta leik átta liða úrslita bikarkeppninnar í blaki, Kjöríssbikarins, í KA-heimilinu í kvöld kl. 18:30. 

  • Kjörísbikar karla í blaki
    KA-heimilið kl. 18:30
    KA - Þróttur Fjarðabyggð

Sigurliðið tryggir sér sæti í undanúrslitum og bikarhelginni. Sömu lið mætast svo aftur í Neskaupstað á föstudag í Íslandsmótinu, Unbroken-deildinni. Bikarleikir eru og verða ávallt öðruvísi en deildarleiki og þótt mótherjar KA í kvöld séu í neðsta sæti í deildarkeppninni segir það ekkert endilega til um hvernig liðin mæta til leiks í bikarleik þar sem sæti í bikarhelginni er undir.

FIMMTUDAGUR – Handbolti og íshokkí

Karlalið KA í handknattleik tekur á móti Fram í KA-heimilinu í 17. umferð deildarkeppninnar. Fyrir leikinn er Fram í í 2. sæti Íslandsmótsins, Olísdeildarinnar, með 23 stig eins og topplið FH. KA er í 9. sæti með 12 stig. KA nældi sér í tvö mikilvæg stig í 16. umferðinni með fyrsta útisigrinum í vetur þegar liðið sótti ÍR heim.

  • Olísdeild karla í handknattleik
    KA-heimilið kl. 19
    KA - Fram

- - -

Karlalið SA í íshokkí er í góðri stöðu á toppi Íslandsmótsins, Toppdeildarinnar, með sex stiga forskot og leik til góða þegar örfáar umferðir eru eftir. SA tekur á móti liði Skautafélags Hafnarfjarðar, SFH, sem eru í 4. sæti deildarinnar, og getur með sigri náð níu stiga forskoti á toppnum. Deildarmeistaratitillinn er þó ekki í höfn þar með. 

  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
    SA - SFH

Björninn er þó ekki unninn með sigri og auðvitað ekki hægt að ganga að sigri sem vísum, því SA á síðan eftir þrjá erfiða leiki, úti og heima gegn Íslandsmeisturum SR og úti gegn Fjölni. Baráttan um efsta sæti deildarinnar og heimaleikjaréttinn í úrslitakeppni stendur einmitt á milli SA og SR, en SA í góðri stöðu eins og áður sagði.

FÖSTUDAGUR Körfubolti og blak

Karlalið Þórs í körfubolta hefur verið að færast hægt og bítandi upp töfluna í 1. deildinni og situr nú í 5. sæti að loknum 16 umferðum með átta sigra, eins og Breiðablik og Fjölnir sem raðast fyrir neðan Þórsliðið. Þórsarar taka á móti liði Snæfells úr Stykkishólmi, en Hólmarar eru í 8. sæti deildarinnar, hafa unnið sex leiki. 

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Snæfell

Sex umferðir eru eftir af 1. deildinni og mikilvægt fyrir Þórsara að halda 5. sætinu því í fyrstu umferð úrslitakeppninnar mætast liðin í 5. og 6. sæti og oddaleiksrétturinn því undir í baráttu um það sæti. Ólíklegt er, en þó ekki útilokað, að ná ofar í töflunni. Fjögur efstu liðin hafa slitið sig aðeins frá og eru með 11-13 sigurleiki.

- - -

Í annað sinn á þremur dögum mætir karlalið KA í blaki Þrótti Fjarðabyggð, en þau mætast í átta liða úrslitum Kjörísbikarsins í kvöld, miðvikudagskvöld. Að þessu sinni fara KA-karlar austur og mæta heimamönnum í íþróttahúsinu í Neskaupstað. 

  • Unbroken-deild karla í blaki
    Íþróttahúsið í Neskaupstað kl. 20
    Þróttur Fjarðabyggð - KA

Fyrir leikinn er KA í efsta sæti deildarinnar, en keppni þriggja efstu liða á toppi deildarinnar er mjög jöfn og spennandi. KA hefur 39 stig, Hamar 39 og Þróttur Reykjavík 37. Þróttur Fjarðabyggð er hins vegar í neðsta sæti deildarinnar með átta stig.

LAUGARDAGUR – Fótbolti, handbolti og körfubolti

Fótboltinn verður áberandi, tveir karlaleikir í A-deild Lengjubikarsins fara fram í Boganum þar sem Akureyrarliðin taka á móti Kópavogsliðum. Fyrst eru það Bestudeildarliðin KA og Breiðablik sem leiða saman hesta sína og svo Lengjudeildarlið Þórs og HK strax á eftir. KA er í 2. sæti síns riðils með fjögur stig eftir tvo leiki, en Þórsarar eru í neðsta sæti síns riðils eftir tap í fyrsta leik.

  • A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu, riðill 2
    Boginn kl. 13
    KA - Breiðablik
  • A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu, riðill 3
    Boginn kl. 15
    Þór - HK

Einnig er á dagskrá útileikur í Lengjubikarnum því Þór/KA mætir Þrótti í Laugardalnum í öðrum leik sínum í A-deild Lengjubikars kvenna. Bæði lið unnu stóra sigra í fyrstu umferðinni, Þór/KA er í 1. sæti riðilsins eftir 9-0 sigur á Tindastóli og Þróttur í 2. sæti eftir 7-1 sigur á Fylki. 

  • A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu, riðill 1
    AVIS-völlurinn í Laugardal kl. 15
    Þróttur - Þór/KA

- - -

Handbolti er líka á dagskrá á laugardag, bæði heima og að heiman. Þórsarar taka á móti Haukum-2 og mega alls ekki við því að misstíga sig eftir tap í síðustu umferð á Selfossi. Selfyssingar tóku toppsætið með sigrinum, hafa 20 stig. Þórsarar eru með 18 stig, en eiga leik til góða. 

  • Grill 66 deild karla í handknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 15
    Þór - Haukar2

Þar sem Þórsarar eru með betri árangur í innbyrðis viðureignum gegn Selfossi myndi það nægja þeim að enda jafnir Selfyssingum að stigum. Sigur í þeim leikjum sem eftir eru myndi því tryggja sæti í efstu deild. Enn eru þó nokkrir leikir eftir, fimm leikir hjá Þórsurum og fjórir hjá Selfyssingum. Þórsarar eiga meðal annars eftir að mæta Herði á Ísafirði og Selfyssingar eiga meðal annars eftir að mæta Víkingum, sem eru í 3. sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum á eftir Þór.

- - -

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að kvennalið KA/Þórs í handknattleik fari beint aftur upp í efstu deild eftir fall síðastliðið vor. KA/Þór er enn taplaust á toppnum, hefur unnið 12 af 14 leikjum sínum í deildinni og gert tvö jafntefli. Liðið er með 26 stig og hefur fimm stiga forskot á Aftureldingu og sex stig á HK þegar aðeins átta stig eru eftir í pottinum.

  • Grill 66 deild kvenna í handknattleik
    Kaplakriki í Hafnarfirði kl. 15
    FH - KA/Þór

Fyrir leikinn er KA/Þór í toppsætinu, eins og áður sagði, en FH er í 7. sæti deildarinnar með 11 stig. Sigur í dag tryggir KA/Þór þó ekki deildarmeistaratitilinn, en hins vegar þyrfti margt að fara úrskeiðis til að koma í veg fyrir að liðið vinni deildina og fari beint upp í Olísdeildina að nýju.

- - -

Keppni í efstu deild Íslandsmótsins í körfuknattleik kvenna, Bónusdeildinni, hefst að nýju um helgina eftir landsleikjahlé. Tvær úr Þórsliðinu, þær Eva Wium Elíasdóttir og Esther Fokke, voru í verkefnum með sínum landsliðum, en aðrar hafa fengið góða hvíld frá kappleikjum frá 28. janúar þegar Þórsliðið spilaði síðast.

  • Bónusdeild kvenna í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18:15
    Þór - Stjarnan

Þórsliðið er enn taplaust á heimavelli á leiktíðinni, en þetta er síðasti heimaleikur liðsins í deildinni fyrir tvískiptingu. Þór og Stjarnan komu saman upp úr 1. deildinni og hafa marga hildi háð í báðum deildum og leikir liðanna oftar en ekki jafnir og spennandi. Þórsliðinu hefur þó gengið betur en Garðbæingum á yfirstandandi tímabili. Þór er í 2. sæti deildarinnar, hefur unnið 12 leiki, en Stjarnan er í 7. sæti með sex sigra.

Þórsarar bættu á dögunum við annarri unglingalandsliðs konu í hópinn þegar félagið samdi við Hönnu Gróu Halldórsdóttur, sem fædd er 2007 og kemur frá Keflavík. Áður hafði félagið samið við Öddu Sigríði Ásmundsdóttur sem kom til félagsins frá Snæfelli. Báðar eru þær ungar og efnilegar og hafa spilað með yngri landsliðum Íslands.