Bikarævintýrið á enda – MYNDIR
KA tapaði 2:1 fyrir FH í undanúrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu í Hafnarfirði í gærkvöldi, eins og Akureyri.net greindi frá. Draumurinn um að komast í bikarúrslit í fjórða skipti er því fyrir bí í ár, sem er grátlegt því KA-menn voru með pálmann í höndunum í Kaplakrika; voru betri og 1:0 yfir þegar 20 mínútur voru eftir. Þá var bakvörðurinn Bryan Van Den Bogaert rekinn út af sem reyndist vendipunktur. FH jafnaði fljótlega, fékk svo víti sem Jajalo KA-markmaður varði en sigurmarkið kom í uppbótartíma.
_ _ _
KA TEKUR FORYSTU
Elfar Árni Aðalsteinsson kom KA yfir á 18. mínútu eftir snögga sókn. Hallgrímur Mar Steingrímsson sendi boltann glæsilega fram völlinn, í gegnum miðja FH-vörnina. Elfar náði boltanum á undan varnarmanni, lék á Atla Gunnar markvörð sem kom út á móti honum og skoraði auðveldlega í tómt markið! Afar laglega gert hjá þeim félögum.
_ _ _
MÖRKIN GÁTU ORÐIÐ FLEIRI
- Sveinn Margeir Hauksson tók aukaspyrnu töluvert utan teigs strax á áttundu mínútu, glæsilegt skot hans stefndi upp í nærhornið en Atli Gunnar FH-ingur varði með tilþrifum.
- Sveinn Margeir fékk svo dauðafæri á 34. mínútu; Van Den Bogaert sendi fyrir frá vinstri kanti, Sveinn var óvaldaður nálægt markinu en skallaði framhjá.
- Ásgeir Sigurgeirsson, sem leysti Elfar Árna af hólmi, fékk góða sendingu inn í teiginn frá Nökkva Þey á 61. mín, komst í fínt færi en Atli Gunnar var fljótur út á móti og varði.
_ _ _
HART TEKIST Á
FH-ingar fengu þrjár áminningar í fyrri hálfleik og fjórða gula spjaldið til heimamanns fór á loft þegar 10 mín. voru búnar af seinni hálfleik. Björn Daníel Sverrisson braut þá viljandi og ansi hressilega á Nökkva Þey Þórissyni sem var á fleygiferð fram vinstri kantinn nálægt miðlínu. KA-menn brugðust ókvæða við og einn þeirra fékk gult fyrir mótmæli; bakvörðurinn Van Den Bogaert, sem fékk svo annað gult og þar með rautt korteri síðar.
_ _ _
VENDIPUNKTUR
Áðurnefndur Van Den Bogaert braut á Oliver Heiðarssyni úti á vinstri kanti þegar 20 mín. voru eftir. Fékk annað gult spjald að launum og þar með rautt. Ótrúlega klaufalegt; brotið var ekki nauðsynlegt og fyrra gula spjaldið fékk hann fyrir mótmæli sem fyrr segir.
_ _ _
FH JAFNAR
Ekki leið langur tími frá því KA-menn urðu einum færri þar til FH-ingar náðu að jafna eftir snögga sókn. KA fékk hornspyrnu sem Hallgrímur Mar tók þegar 72 mínútur og 53 sekúndur voru liðnar af leiknum og miðvörðurinn Gaber Dobrovoljc skallaði langt framhjá. Markvörður FH var snöggur að hugsa og tók markspyrnu í flýti; negldi fram vinstri kantinn þar sem Úlfur Ágúst Björnsson fékk boltann, lék á KA-mann og sendi fyrir markið, Matthías Vilhálmsson skallaði til Olivers Heiðarssonar, sem áður var nefndur, og laust skot hans af stuttu færi hafnaði í markinu. Þá sýndi vallarklukkan 73 mín. og 17 sek. Oliver skoraði sem sagt 24 sekúndum eftir að Hallgrímur tók hornspyrnuna á hinum enda vallarins.
_ _ _
JAJALO VER VÍTI
FH fékk víti þremur mínútum eftir að þeir jöfnuðu metin. Dómurinn var hárréttur en hræðilegur varnarleikur Gaber Dobrovoljc orskaði vítaspyrnuna. Boltinn var sendur inn í vítateig, Gaber hugðist láta hann rúlla aftur fyrir endamörk en Davíð Snær Jóhannsson skaust fram fyrir hann, náði boltanum og lék í átt að markinu þegar KA-maðurinn greip til þess ráðs að brjóta á honum. Pétur dómari var rétt við atvikið og benti umsvifalaust á vítapunktinn. Kristijan Jajalo gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði fasta spyrnu Steven Lennon með glæsibrag.
_ _ _
SIGURMARKIÐ
FH-ingurinn Davíð Snær Jóhannsson kom af varamannabekknum þegar 25 mín. voru eftir og óhætt er að segja að hann hafi nýtt tækifærið vel. Vítið var dæmt á KA vegna brots á honum og Davíð gerði svo sigurmarkið þegar þrjár mínútur voru búnar af fimm mín. uppbótartíma. Markið var stórglæsilegt; eftir að Ívar Örn skallaði boltann út úr vítateig KA barst boltinn til Davíðs úti fyrir miðjum teignum, hann hafði nægan tíma til að leggja boltann fyrir sig og þrumaði honum upp í vinstra horn marksins með vinstri fæti.