Áttundi leikur KA í undanúrslitum
KA-menn leika nú í áttunda skipti í undanúrslit bikarkeppninnar og þrisvar hafa þeir komist í úrslitaleikinn. KA og FH hafa tvisvar áður mæst í undanúrslitum og KA haft betur í bæði skiptin. KA komst í undanúrslit fjögur ár í röð í upphafi aldarinnar, eins og sjá má hér að neðan, 2001 til 2004.
1985
Keflavík – KA 2:0
KA lék fyrst til undanúrslita í bikarkeppninni sumarið 1985. Liðið lék þá í næst deild Íslandsmótsins og tapaði 2:0 fyrir Keflvíkingum í síðustu hindruninni á leið í úrslit.
1992
KA – ÍA 2:0
Pavel Vandas og Árni Hermannsson skoruðu og KA komst í úrslit í fyrsta skipti.
Úrslitaleikurinn á Laugardalsvelli er öllum KA-mönnum án efa í fersku minni þótt 30 ár séu liðin; KA var yfir 2:1 þangað til sjö sekúndur voru eftir! Anthony Karl Gregory, sem varð Íslandsmeistari með KA 1989, jafnaði þá með stórkostlegri hjólhestaspyrnu og Valur gerði svo þrjú mörk í framlengingunni.
2001
FH – KA 0:3
Leikið var á Kaplakrikavelli. Hreinn Hringsson, Ívar Bjarklind og Þorvaldur Makan Sigbjörnsson gerðu mörkin. KA lék í næst efstu deild þetta sumar en FH var með eitt besta lið landsins. Úrslitin komu því verulega á óvart.
2002
Fylkir – KA 3:2
Hreinn Hringsson og Þorvaldur Makan Sigbjörnsson gerðu mörk KA. Fylkir komst í 3:0 en KA sótti án afláts síðustu 25 mínúturnar og gerði þá bæði mörkin.
2003
ÍA – KA 4:1
Leikið var á Laugardalsvelli. Akurnesingar gerðu út um leikinn á fyrstu 10 mínútum seinni hálfleiks þegar þeir gerðu þrjú mörk. Elmar Dan Sigþórsson minnkaði muninn en Skagamenn gerðu fjórða markið í blálokin.
2004
KA – FH 1:0
Leikið var á Laugardalsvelli. Hreinn Hringsson gerði eina markið og óhætt að segja að úrslitin voru heldur betur óvænt. Nokkrum dögum áður höfðu FH-ingar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti, einmitt með sigri á KA á Akureyrarvelli og KA-liðið féll þar með úr efstu deild.
2015
KA - Valur 1:1
KA, sem lék í næst efstu deild, sigraði Breiðablik – sem þá var eitt besta lið landsins – í 16 liða úrslitunum á útivelli, sló Fjölni, sem einnig var í efstu deild, út í átta liða úrslitum en tapaði fyrir Val í undanúrslitum á Akureyrarvelli. Elfar Árni Aðalsteinsson náði forystu fyrir KA úr víti snemma leiks, Valsmenn jöfnuðu og gripið var til vítaspyrnukeppni. Valsmenn skoruðu úr öll spyrnum sínum en KA-menn úr fjórum; Josip Serdarusic náði því ekki og því fór sem fór.