Fara í efni
Íþróttir

Aron Snær kominn einu höggi fram úr Hlyni

Aron Snær Júlíusson úr GKG er kominn með eins höggs forystu þegar Íslandsmótið er hálfnað. Hér er hann á 18. flöt eftir að keppni lauk í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Aron Snær Júlíusson, Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, lék Jaðarsvöll á fjórum höggum undir pari í dag, á öðrum keppnisdegi Íslandsmótsins. Hann hefur því tekið forystuna, er einu höggi á undan Hlyni Bergssyni, klúbbfélaga sínum, sem var efstur eftir fyrsta dag. Mótið er hálfnað.

Hlynur lék holurnar 18 á 66 höggum í gær, fimm undir pari, en fór á 72 höggum í dag. Aron Snær lék á 70 höggum í gær en 67 í dag, fjórum undir pari. Hlynur hefur því notað alls 138 högg en Aron Snær 137. Næstu menn, Daníel Ísak Steinarsson úr Keili og Aron Emil Gunnarsson úr Golfklúbbi Selfoss, eru á 141 höggi. Akureyringurinn Tumi Hrafn Kúld og þrír aðrir eru á 142 og Lárus Ingi Antonsson, Akureyrarmeistari, er á 143 höggum.

Smellið hér til að sjá tölfræði allra keppenda.