Fara í efni
Íþróttir

Andri Snær: „Ég vil fá enn betri leik á morgun“

Hulda Bryndís Tryggvadóttir, Martha Hermannsdóttir og Rut Jónsdóttir eftir góðan sigur í dag. Ljósmynd: Elvar Jónsteinsson.

„Þetta var hörku leikur og ég er gríðarlega ánægður með lokakaflann þar sem við náðum loksins alvöru vörn og fengum ódýr hraðaupphlaupsmörk sem voru dýrmæt,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs í handbolta, eftir frækinn sigur í fyrsta Evrópuleik liðsins; 26:22 gegn KHF Isogu í Kósóvó fyrr í dag.

Liðin mætast aftur á morgun, laugardag, í keppninni og það telst heimaleikur KA/Þórs. Leikurinn hefst klukkan 16.00 og á nást í beinni útsendingu á sjónvarpsrás Handknattleikssambands Evrópu, EHF TV.

Lengi í gang

„Við vorum lengi í gang og áttum í erfiðleikum með vinstri skyttuna þeirra sem er hörku leikmaður,“ sagði Andri Snær, en Emsa Muratovic, sem hann á við, gerði 12 mörk í leiknum.

„Sóknarlega vorum við að fara illa með góð færi og náðum þar með ekki alveg okkar takti í okkar leik. Við fengum ansi margar brottvísanir allan leikinn sem gerði okkur erfitt fyrir, auk þess að bæði Rakel Sara [Elvarsdóttir ] og Sofie [Söberg Larsen] duttu út meiddar.“

Andri reiknar með að Rakel Sara verði klár í slaginn á morgun en Sofie verður ekki með.

Hálfleikur

Andri Snær var ánægður með „karakterinn“ í liði sínu þegar leið á leikinn og það varnarafbrigði gafst vel að fara vel út á móti Muratovic. „Matea tók góða bolta í restina og við fórum loksins að salla inn mörkum,“ sagði þjálfarinn.

„Nú er bara hálfleikur og við notum tímann vel á milli leikja í endurheimt auk þess að skoða vel hvað við getum gert betur á morgun. Við eigum fullt af hlutum inni og ég vil fá enn betri leik á morgun. Við ætlum okkur klárlega að ná góðri vörn frá byrjun á morgun, það er lykillinn að sigri,“ sagði Andri Snær.

 Smelltu hér til að lesa um leikinn.

Andri Snær Stefánsson þjálfari, til hægri, og Sigþór Árni Heimisson aðstoðarmaður hans, glaðbeittir í Istogu í dag. Ljósmynd: Elvar Jónsteinsson.