Fara í efni
Íþróttir

Andrea Ýr þriðja í Íslandsmóti í holukeppni

Verðlaunahafarnir í kvennaflokki. Andrea Ýr Ásmundsdóttir (GA), Perla Sól Sigurbrandsdóttir (GR) og Hulda Clara Gestsdóttir (GKG). Mynd: golf.is

Andrea Ýr Ásmundsdóttir úr Golfklúbbi Akureyrar náði 3. sætinu í Íslandsmótinu í holukeppni sem lauk nú síðdegis á Hamarsvelli við Borgarnes.

Andrea Ýr mætti Perlu Sól Sigurbrandsdóttur úr GR í undanúrslitum og mátti játa sig sigraða eftir að þær höfðu lokið við að leika 17 holur og Perla Sól komin með þriggja holu forskot. Perla Sól varð síðan Íslandsmeistari með sigri á Huldu Clöru Gestsdóttur í úrslitaviðureigninni.

Andrea Ýr mætti hinni reyndu Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur í leik um 3. sætið og hafði þar betur í spennandi leik þar sem jafnt var eftir 18. holuna, en Andrea Ýr nældi í 3. sætið með sigri á 19. holunni. 

Fyrirkomulag mótsins var breytt frá því sem verið hefur í áraraðir, eins og fram kom í frétt hér á Akureyri.net í morgun, en þar má einnig lesa um leið Andreu Ýrar í undanúrslitin. Í frétt GA af árangri Andreu segir meðal annars að hún hafi sýnt miklar stáltaugar í mótinu og þær þrjár viðureignir sem hún vann fóru allar í bráðabana.