Akureyrskur handbolti fyrir sunnan í kvöld
Handboltalið Akureyringa í meistaraflokki verða öll í eldlínunni syðra í kvöld. Tvíhöfði KA og KA/Þórs verður í Mosfellsbæ og Þórsarar hefja keppnistímabilið í Safamýrinni.
- Kl. 18 að Varmá í Mosfellsbæ
Olísdeild karla: Afturelding - KA - Kl. 18 í Safamýri í Reykjavík
Grill 66 deild karla: Víkingur - Þór - Kl. 20 að Varmá í Mosfellsbæ
Grill 66 deild kvenna: Afturelding - KA/Þór
Fyrri leikurinn í Varmártvíhöfðanum er viðureign karlaliðs KA og Aftureldingar efstu deild Íslandsmótsins, Olísdeildinni. KA-menn hafa farið illa af stað, tapað tveimur fyrstu leikjunum í mótinu, útileik gegn Gróttu og heima gegn Haukum. Afturelding tapaði fyrir Haukum í fyrstu umferðinni, en vann Val í annarri og er því með tvö stig.
Á sama tíma og leikið er í Mosfellsbænum spila Þórsarar sinn fyrsta leik í næstefstu deild Íslandsmótsins, Grill 66 deildinni, þegar þeir mæta Víkingi í Safamýri. Þessi lið eru tvö af þeim fimm sem mega berjast um að fara upp um deild. Þórsurum var af þjálfurum og fyrirliðum spáð efsta sæti deildarinnar, en Víkingum var spáð fjórða sætinu.
Seinni leikurinn í Varmártvíhöfðanum er viðureign KA/Þórs og Aftureldingar í Grill 66 deild kvenna. Bæði liðin féllu úr efstu deild, Olísdeildinni, í vor. KA/Þór hóf leik í deildinni með stórsigri á Haukum 2 á heimavelli, 33-15, í fyrstu umferðinni. Afturelding vann þriggja marka sigur á Val 2.