Fara í efni
Íþróttir

Æft af krafti og Alex Þór hefur unnið eitt mót

Alex Þór ásamt þjálfaranum Kyle Pallin, til vinstri, og á efsta verðlaunapalli í gær.

Alex Þór Einarsson er bráðefnilegur keppandi í snjókrossi – snocross sem hefur gert það gott hér heima en er þessa dagana í æfingabúðum í Bandaríkjunum þar sem hann sigraði á svæðismóti í Minnesota um helgina. Sífellt fleiri stunda þetta vinsæla vélsleðasport hér á landi.

Alex, sem verður ekki 16 ára fyrr en í mars, hefur unnið hvert mótið af öðru í unglingaflokki hérlendis og einnig staðið sig vel í Sport flokki, þeim næsta ofan við unglingaflokk. Hann er í æfingabúðum hjá Kyle Pallin, atvinnumanni í snocross í Elk River í Minnesotaríki, manni sem á frábæran feril að baki í keppni fyrir Team LaValleem, að sögn Einars Geirssonar, föður Alex Þórs sem er með honum ytra.

Æft er alla daga og Alex tók þátt í fyrstu keppninni á fimmtudag þar sem hann endaði í 5. sæti í Sport flokki. Um helgina keppti hann aftur, varð þá fyrstur í fyrstu umferð, þriðja í þeirri næstu og sigraði síðan í úrslitaumferðinni. Þarna var um svæðismót að ræða en Alex býr sig nú undir að keppa á stærsta mögulega sviðinu; móti á landsvísu á sama stað um næstu helgi.