Fara í efni
Íþróttir

Bjarki sér „hvorki eftir krónu né mínútu“

Bjarki Sigurðsson vélsleðakappi fór í mikla ævintýraferð til Bandaríkjanna í síðasta mánuði, eins Akureyri.net fjallaði um í gær og fyrradag. Hér birtist síðasti hluti viðtalsins við Bjarka um ferðina; vinir hans söfnuðu rúmlega einni milljón króna og gáfu með því skilyrði að hann notaði gjöfina til þess að láta þann draum rætast að halda á vit ævintýranna vestanhafs.

Þegar frá var horfið í gær var seinni keppnishelgin að baki. Honum gekk frábærlega fyrri helgina í Sioux-Falls í Suður-Dakóta en viku síðar þurfti Bjarki að hætta keppni í fyrsta skipti á ævinni – vegna meiðsla. 
_ _ _

Það má væntanlega gera ráð fyrir að ferðin hafi verið þess virði þó svo seinni helgin hafi verið vonbrigði?

„Ég sé hvorki eftir krónu né mínútu í þessari ferð. Ef ég myndi vilja breyta einhverju þá myndi ég vilja svissa helgunum, hafa vondu helgina fyrr og góðu helgina seinni. Maður er með það mikið keppnisskap að það situr alveg í manni þegar það gengur illa. Og meira að segja á fyrri helginni þegar ég endaði í 6. sæti þá var ég pínu fúll því ég fann það að ég hafði hraðann til að ná gæjanum í fimmta sæti.“

Bjarki er keppnismaður og sættir sig aldrei við neitt minna en fyrsta sætið. „Það er rosa erfitt þegar maður lendir ekki í því. Maður þarf að hafa væntingastjórnun þegar maður fer í svona keppni erlendis og veit að maður er ekki á sama leveli og þessir kappar þarna úti.“

     _ _ _

Bjarki segir ferðina hafa verið sérlega dýrmæta. Hann hafi eignast marga nýja vini, stækkað tengslanetið gífurlega, til dæmis upp á tæknilega aðstoð þegar kemur að bilunum, kaup á notuðum sleðum að utan og þegar kemur að keppnishaldi. „Maður var bara tekinn alveg inn þarna og allir tilbúnir að gera allt fyrir mann.“ Hann segir líka mjög gaman að hafa gert þetta því nú viti menn svona um það bil hvar Íslendingar standa út frá hraðanum sem menn keyra á hér heima í samanburði við Bandaríkjamennina. „Alltaf gaman að miða sig við Ameríku því það er bara stóra deildin,“ segir hann.

Bjarki mættur í vinnuna í AB varahlutum á ný: Alltaf gaman að miða sig við Ameríku því það er bara stóra deildin.

Ómögulegt án bakhjarla

Þú ert í fullri vinnu, en almennt til að stunda þetta sport – þarf ekki fullt af bakhjörlum?

„Jú, þetta er einstaklingssport og þetta er algjörlega ómögulegt án allra bakhjarla og fólks í kringum mann. Á einni svona keppni er ég persónulega alltaf með einn til tvo bara að sjá um mig. Það þarf að sinna tækinu, það þarf að aðstoða mig með búnað og annað. Sleði í dag kostar þrjár milljónir, búnaðurinn kostar hálfa milljón plús og svo þarf að komast í æfingaaðstöðu og annað. Þetta er aldrei hægt nema með hjálp góðra aðila.“

Talið berst að keppninni sem fram fór á Akureyrarvelli laugardaginn 1. apríl. Bjarki segir einstakt að menn hafi á sunnudegi ákveðið að blása til móts á Akureyrarvelli og á laugardegi helgina eftir sé haldið mót. „Ég vil sjá þetta gerast einhvers staðar annars staðar en í mótorsporti,“ segir hann. „Svona stór viðburður, að þetta skuli nást í gegn á fimm dögum, það er bara eitthvað stórkostlegt.“ Bjarki nefnir sem dæmi að á fimmtudeginum fyrir mótið hafi keppendur og aðrir verið að handmoka snjó úr stúkunni og árhorfendabrekkunni við Akureyrarvöll. „Á sama tíma eru verktakar bæjarins að sturta inn hátt í þúsund vörubílahlössum af snjó – sem er bara stórkostlegt!“

Bjarki í Bandaríkjunum: Ég stend fastur á því að þetta er erfiðasta íþrótt í heimi.

Allt breytist þegar hjálmurinn er kominn á höfuðið

Bjarki fær svo samviskuspurningu að lokum. Ertu aldrei lífhræddur, hugsarðu um hvaða afleiðingar þetta sport gæti haft fyrir þig ef illa fer?

„Þessi pæling kemur helling inn á milli,“ segir Bjarki og nefnir að það hafi líka komið meira eftir að hann eignaðist börn – en hann á tvo syni. Þá komi þessi pæling upp inn á milli þegar hann er kannski aumur eftir keppni og velti fyrir sér að þetta sé kannski ekki sniðugt. „En svo þegar hjálmurinn er kominn á þá er þessi pæling ekkert til staðar.“

Hann tekur líka sem dæmi að seinni helgina úti, þegar hann átti við meiðslin að stríða í ökklum og hælum, þá hafi hann hugsað um að keyra með annað í huga en að vinna. „Bara keyra og reyna að þrauka og þá strax koma inn mistök, ég dett, ég er tekinn út, ég stekk pallana vitlaust – það er bara af því að ég er ekki með hugann 120% við aksturinn. Þetta er það mikil nákvæmnisíþrótt að þú verður að vera með alveg á kristaltæru hvað þú ert að gera vegna þess að brautin er síbreytileg. Þetta er til dæmis ekki eins og bílakappakstur þar sem brautin er býsna svipuð hring eftir hring. Þarna kemur þú á stökkpall einn hring og þar er kannski fínt og flott uppstök og góð og fín lending – svo á næsta hring er það orðið ónýtt vegna þess að það eru 20 aðrir búnir að keyra og skemma það. Þú ert allan tímann, alla hringina að horfa á og finna réttu línuna til að keyra pínulítið hraðar.“

Bjarki er heldur ekki í vafa hvernig snjókrossið stendur í samanburði við aðrar íþróttagreinar. „Þetta er bæði líkamlega og andlega rosalega erfið íþrótt og ég stend fastur á því að þetta er erfiðasta íþrótt í heimi.“

Bjarki á verðlaunapalli ásamt foreldrum sínum og kærustu eftir sigur í flokki 30 ára og eldri í Sioux Falls. Frá vinstri: Pálína Austfjörð, Sigurður Sigurþórsson, Bjarki og Arney Ágústsdóttir.

Bjarki á fleygiferð í einni keppninni vestanhafs í síðasta mánuði.