Íþróttir
Hvað þurfa KA-menn að gera til að fara áfram?
04.06.2021 kl. 15:34
Árni Bragi Eyjólfsson fór hamförum gegn Val í síðasta leik. Hér er eitt 15 marka hans í leiknum um það bil að verða til. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
KA mætir Val öðru sinni í átta liða úrslitum Olísdeildar Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld. Valsmenn unnu fyrri leikinn, 30:26, svo KA-menn verða að vinna í kvöld, ellegar fara þeir í sumarfrí.
Úrslitakeppnin er með nýju sniði þetta árið vegna þess hve mótið dróst mjög á langinn sakir samkomutakmarkana. Í stað þriggja leikja, þar sem sigra þurfti í tvígang til að komast áfram, verða aðeins tveir leikir.
Þrír möguleikar eru í stöðunni fyrir KA-menn til að komast í undanúrslit:
- KA fer áfram ef liðið vinnur með fimm marka mun.
- KA nægir að vinna með fjórum mörkum, ef liðið gerir meira en 26 mörk í leiknum.
- Ef KA vinnur með sömu tölum og fyrri leikurinn endaði – 30:26 – ráðast úrslit í vítakastkeppni.
- Leikurinn hefst klukkan 20.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.