Fara í efni
Fréttir

Vonbrigði í deildinni en enn er von um bikar

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir leikinn gegn Breiðabliki og skyldi engan undra. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn verða að bíta í það súra epli annað árið í röð að leika í neðri hluta Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, þegar hann er skipt upp í tvennt að loknum 22 umferðum. Þeir töpuðu fyrir toppliði Breiðabliks á heimavelli á sunnudaginn og þar með er vonin um sæti í efri hlutanum úti þótt einn leikur sé eftir, eins og Akureyri.net greindi frá.

Heppni Breiðabliks og klaufagangur KA-manna varð til þess að stigin þrjú fóru suður á bóginn með gestunum. KA-liðið varðist illa í öllum þremur mörkum Blika og mjög góð færi til að skora fleiri mörk fóru forgörðum. Þá verður að nefna að KA-menn vildu fá víti rétt áður en Blikar gerðu sigurmarkið og voru ævareiðir dómaranum fyrir að dæma ekki.

KA hefur verið „heitasta“ lið Bestu deildarinnar síðan í lok júní. Þar til á sunnudag hafði KA ekki tapaði síðan 19. júní, þá einnig fyrir Breiðabliki, 2:1 í Kópavogi. Síðan hefur KA unnið Fram í tvígang, HK, Vestra, Víking og Val í deildinni og gert jafntefli við FH, KR, Fylki og Stjörnuna.

Viðar Örn Kjartansson var lengi í gang eftir að hann kom til KA en hefur verið andstæðingunum óþægur ljár í þúgu eftir að hann náði sér á strik og hefur skorað í síðustu fjórum leikjum með liðinu. Hann gerði bæði mörkin gegn Blikum á sunnudaginn.

Á þessu tímabili fékk KA því 22 stig í 10 leikjum, af 30 mögulegum. Afleit byrjun á leiktíðinni kom KA-mönnum hins vegar í koll því fram að hinu nauma tapi gegn Blikum í Kópavogi í júní, þegar viðsnúningurinn hófst í raun, hafði liðið lokið níu leikjum í deildinni, tapað sex þeirra, gert tvö jafntefli og aðeins unnið einn – gegn botnliði Fylkis á heimavelli í sjöundu umferð.

KA vann næst í 11. umferð þegar Fram kom í heimsókn og í kjölfarið var KA-liðið illviðráðanlegt; vann sex leiki og gerði fjögur jafntefli auk þess að leggja Val að velli í undanúrslitum bikarkeppninnar. KA og Víkingur mætast í úrslitaleiknum, annað árið í röð, og það mun að miklu leyti velta á úrslitum þess leiks hvort sumarið telst vonbrigði eður ei hjá KA. Það að leika ekki í efri hluta deildarinnar á lokakaflanum eru að sjálfsögðu vonbrigði en verði liðið bikarmeistari í fyrsta sinn verður slíkt fljótt að gleymast. 

MÖRKIN Á SUNNUDAG

  • 0:1 Breiðablik fékk aukaspyrnu rétt utan vítateigs á 20. mínútu. Skarð myndaðist í varnarvegg KA þegar Hrannar Steingrímsson vék sér til hliðar og Kristinn Jónsson skaut þar í gegn, Steinþór Már varði en svo óheppilega vildi til fyrir KA að Daniel Obbekjær var óvaldaður á markteignum, boltinn datt fyrir fætur hans og danski varnarmaðurinn átti auðvelt með að skora.
  • 1:1 KA jafnaði á 36. mínútu eftir frábæra sókn. Bjarni Aðalsteinsson fékk boltann frétt framan við eigin vítateig, tók á rás og linnti ekki látum fyrr en hann var kominn alla leið að vítateig Breiðabliks þar sem hann renndi boltanum til Ásgeirs Sigurgeirssonar hægra megin við vítateiginn. Viðar Örn Kjartansson laumaði sér fram fyrir varnarmann á markteignum á hárréttu augnabliki og afgreiddi boltann með laglegri hælspyrnu í markið eftir fasta sendingu fyrirliða KA. Glæsilega gert. Þarna sýndi sig vel innsæi markaskorarans.
  • 1:2 Blikar komust yfir á ný þegar sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Ísak Snær Þorvaldsson var þar að verki með viðstöðulausu skoti úr miðjum vítateignum eftir sendingu utan af vinstri kanti. KA-menn voru illa á verði því enginn var nálægur Ísak þegar hann fékk boltann.

Viðar Örn jafnaði 2:2 á 62. mínútu eftir mikinn klaufagang Blika. Höskuldur Gunnlaugsson sendi boltann hér aftur til Antons Ara markvarðar ...

... Anton Ari sendi á Daniel Obbakjær en nafni hans í KA-liðinu Hafsteinsson vann boltann auðveldlega af honum, sendi á Ásgeir Sigurgeirsson, fékk boltann aftur og renndi til hliðar á Viðar Örn Kjartansson ...

... og markskorarinn lék auðveldlega á téðan Obbekjær áður en hann þrumaði boltanum undir Anton Ara og í netið.

  • 2:2 Um 10 mín. síðar skoraði Viðar Örn aftur fyrir KA eftir ótrúlegan klaufagang í vörn gestanna. Sendi boltann undir Anton Ara markvörð Blika úr miðjum vítateignum.

  • 2:3 Sigurmark Blika kom á 82. mín. Þeir fengu innkast á hægri kanti, boltanum var kastað til Ísaks Snæs við endalínu vallarins, hann sendi boltann út í teig með hælnum og eftir klafs þar rak Daníel Hafsteinsson fót í boltann sem hrökk fyrir fætur Kristófers Inga Kristinssonar sem þakkaði kærlega fyrir með því að skora; Steinþór Már markvörður átti enga möguleika á að verja fast skot hans í bláhornið.

Blikar fagna sigurmarkinu sem Kristófer Ingi Kristinsson gerði á 82. mínútu.

KA vildi víti – dauðafæri í súginn

Rétt áður en Breiðablik gerði sigurmarkið vildu KA-menn fá víti eins og áður kom fram. Viðar Örn Kjartansson féll í teignum og lá þar drjúga stund eftir að varnarmaður spyrnti boltanum burt. Viðar sagði varnarmanninn hafa sparkað í sig og virðist hafa nokkuð til síns máls, en af sjónvarpsmyndum að dæma er þó ekki eins augljóst að dæma hefði átt víti og látið hefur verið í veðri vaka.

KA fékk góð færi til að skora meira en mörkin tvö eins og áður sagði, þau bestu í seinni hálfleik; Viðar Örn skaut framhjá eftir gott samspil bræðranna Hallgríms og Hrannars, Viðar fékk annað fínt færi sem nýttist ekki og undir lokin fengu þeir Hallgrímur Mar og Jakob Snær, sem leysti Viðar Örn af hólmi skömmu áður, dauðafæri en skutu báðir beint á Anton Ara markvörð.

Jakob Snær Árnason í upplögðu færi þegar komið var í uppbótartíma ... 

... hann þrumaði að marki en skotið fór beint á Anton Ara markvörð Breiðabliks.

Tölfræði KA í deildinni í sumar er nánast eins og í fyrra:

  • Af 21 leikjum í sumar hefur KA unnið 7, gert 6 jafntefli og tapað 8. Markatalan er 32:27 og stigin 27.
  • KA vann 8 af 22 leikjum áður en deildinni var skipt í tvennt í fyrrasumar, gerði 5 jafntefli og tapaði 9 leikjum. Markatalan var 31:39 og liðið fékk 29 stig.
  • Í fyrra varð KA í sjöunda sæti, þremur stigum á KR sem náði sjötta sæti.
  • KA verður í sjötta eða sjöunda sæti við skiptingu deildarinnar í ár, það ræðst í lokaumferðinni um aðra helgi. Möguleiki er á að KA verði aðeins einu stigi frá sjötta sætinu en úrslit gæti orðið þannig að munurinn yrði sex stig.