Fara í efni
Fréttir

Vinsælt hjá kylfingum að geta slegið til góðs

Finnur Aðalbjörnsson eigandi Skógarbaðanna sló fyrstur af teignum góða á stéttinni fyrir utan böðin. Hann vildi ekki tjá sig í smáatriðum um árangurinn en kvaðst ekki hafa nælt sér í vinning ... Myndir: Skapti Hallgrímsson

Margir gerðu sér ferð að Skógarböðunum í gær til þess að slá nokkrar golfkúlur og styrkja gott málefni í leiðinni. Það verður einnig hægt í dag og á morgun.

Í tilefni alþjóðlega Arctic Open mótsins, sem hófst á Jaðarsvelli í gær, tóku Skógarböðin og Golfklúbbur Akureyrar saman höndum og bjóða fólki upp á að slá golfkúlu frá inngangi Skógarbaðanna niður á flöt á eyju sem Finnur Aðalbjörnsson, verktaki og eigandi Skógarbaðanna, útbjó ásamt sínu fólki í vatni neðan við böðin.

Þetta er bæði til gamans gert og í góðgerðarskyni því greitt er fyrir hvern golfbolta sem sleginn er og allt fé sem safnast rennur til Grófarinnar - geðræktar á Akureyri.

Verðskráin er sem hér segir:

  • 1 högg kostar 1.000 kr.
  • 3 högg kosta 2.000 kr.
  • 5 högg kosta 3.000 kr. eða upphæð að eigin vali.

Auk þess að styrkja gott málefni geta þeir hittnustu nælt sér í verðlaun frá Skógarböðunum og golfklúbbnum, til dæmis gjafakort í boðin og spiltíma á Jaðri.

Reynir Bjarnar Eiríksson var á meðal þeirra fyrstu sem slógu við Skógarböðin í gær og sá fyrsti sem nældi sér í vinning. Kúlan lenti svo nálægt holu á eyjunni góðu að Reynir getur skellt sér í böðin einhvern tíma á næstunni.

Horft úr afgreiðslusal Skógarbaðanna um hádegisbil í gær.