Fara í efni
Fréttir

Vél easyJet gat ekki lent – fer til Keflavíkur

Vél breska flugfélagsins easyJet sem kom frá Manchester gat ekki lent á Akureyrarflugvelli í hádeginu vegna ofankomu og lélegs skyggnis og var snúið til Keflavíkur. Þetta er í fyrsta skipti síðan easyJet hóf að fljúga frá Englandi sem ekki hefur tekist að lenda á Akureyri.

„Vélin frá Manchester gat ekki lent og snýr nú til Keflavíkurflugvallar sem er varaflugvöllur easyjet í þessu flugi. Nú hefði verið gott ef RNP AR aðflugið hefði verið komið í notkun. Aðflug sem býr upp á lægri aðflugslágmörk og þannig væri hægt að lenda í lágskýaðra veðri og verra skyggni,“ skrifar Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður á Facebook síðu sína. Njáll Trausti þekkir allar aðstæður vel enda starfaði hann í mörg ár sem flugumferðarstjóri á Akureyrarflugvelli.
 
Tafist hefur von úr viti að koma upp þeim búnaði sem Njáll Trausti nefnir og bæjarráð Akureyrar harmaði einmitt í síðustu viku seinagang Isavia í því máli eins og Akureyri.net greindi frá. Sjá frétt hér um það.
 

Vél Icelandair sem kom frá Reykjavík gat lent á Akureyri á meðan easyJet vélin hringsólaði yfir Norðurlandi. Icelandair notast við annað aðflug með lægri lágmarkshæð en það er of bratt, svo brúkað sé flugmál, til að jafn stór vél og Airbus easyJet geti notað það. Lágmarkið í RNP AR aðfluginu, sem nefnt var að framan og byggir á gervihnattarleiðsögn, er hins vegar það sama og Icelandair býr við. Hefði RNP AR aðflugið verið kominn í notkun á Akureyri hefði vél easyJet nær örugglega getað lent í dag að sögn Njáls Trausta.

Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður í flugturninum á Akureyri. Hann starfaði þar um árabil sem flugumferðarstjóri. Mynd: Þorgeir Baldursson