Fara í efni
Fréttir

Hótel opnað í sumar í Gránufélagshúsunum

Strandgata 49 hefur löngum verið talið eitt fallegasta hús bæjarins. Húsið – það stóra, svarta – fær nýtt hlutverk í sumar þegar 17 herbergja hótel opnar í húsinu. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Eitt sögufrægasta hús Oddeyrarinnar, Strandgata 49, gengur nú í endurnýjun lífdaga. Húsið fær senn nýtt hlutverk þegar Bryggjan Boutique Hotel verður opnað þar í sumar.

Gránufélagshúsin eiga sér rúmlega 150 ára sögu og eru af mörgum talin vera ein fallegasta bygging Akureyrar. Síðast var þar veitingarekstur en þar sem byggingin er friðuð að innan og utan hefur ferlið við að breyta húsinu í hótel verið tímafrekt og háð ýmsum leyfum. Framkvæmdir eru nú á lokasprettinum, en að sögn eigandans, Róberts Häsler Aðalsteinssonar, mun hótelið halda í sögu hússins og útlit, en á sama tíma bjóða upp á nútímalega og hlýja dvöl fyrir gesti.

Hótelið, sem er 606 fermetrar að stærð, verður með 17 herbergjum, þar af verður ein 65 fm svíta á efstu hæðinni. Herbergin eru öll rúmgóð og eru frá 15 til 30 fermetrar að stærð og öll innréttuð í smekklegum stíl. Það er hönnunarstúdíóið Grafít sem sér um innanhússhönnunina.

Róbert stefnir að því að Bryggjan Boutique Hotel opni í byrjun júní en iðnaðarmenn eru nú á fullu við að breyta húsinu í hótel. 

Pottar, gufa og geymsla fyrir útivistardót

Enginn veitingastaður verður á hótelinu enda segir Róbert að það sé fullt af spennandi veitingastöðum í göngufæri við hótelið sem gestir geti nýtt sér. Bryggjan verður að mestu leyti sjálfsafgreiðsluhótel, þ.e.a.s. gestir fá aðgang að herbergjum með rafrænum kóða. Þó verður móttaka til staðar þar sem gestir geta haft það huggulegt saman, fengið kaffi eða skálað í öðrum drykkjum á staðnum. „Þetta er lítið og sjarmerandi hótel – ekki staður fyrir stóra hópa heldur þá sem vilja upplifa eitthvað persónulegt og öðruvísi,“ segir Róbert. Hann segir boutique-hótel* vera vinsæl erlendis, þar sem gestir sæki í öðruvísi upplifun, en slíka gistingu hafi vantað á Akureyri.

Þá munu gestir einnig hafa aðgang að heitum pottum og gufu á verönd hótelsins, og fyrir útivistarfólk verður góð geymsluaðstaða fyrir golfsett, skíði, hjól og annað útivistardót. Þetta gerir hótelið sérstaklega hentugt fyrir gesti sem vilja nýta sér náttúru og afþreyingu á og við Akureyri.

Róbert segir að bókanir fyrir sumarið séu góðar, sérstaklega frá erlendum ferðamönnum en opnun hótelsins er áætluð í byrjun júní.

 

*Boutique hotel er hugtak notað til að lýsa litlu, einstöku og oftast lúxus hóteli sem leggur áherslu á persónulega þjónustu og gefur gestum tilfinningu fyrir menningu staðarins og ákveðna stemmingu. Gestir slíkra hótela eru oftast að leita að öðruvísi upplifun en stóru hótelkeðjurnar bjóða upp á.

Mynd: Haraldur Ingólfsson