Fréttir
Úrvalsdeildin í pílukasti í Sjallanum í kvöld
16.11.2024 kl. 12:50
Þórsarinn Dilyan Kolev, sá grænklæddi, eftir sigurinn á Akureyri Open – Sjally Pally – fyrr á þessu ári, er á meðal keppenda í Sjallanum í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Fjórða umferð úrvalsdeildarinnar í pílukasti fer fram í Sjallanum í kvöld. Þar etja kappi átta af bestu pílakösturum landsins, m.a. Þórsarinn Dilyan Kolev.
Þeir 16 bestu fengu þátttökurétt í úrvalsdeildinni, hver og einn keppir tvisvar í fyrstu fjórum umferðunum og segja má að keppnin í kvöld sé sú mest spennandi til þessa því þá ræðst hvaða átta keppendur komast áfram.
Átta stigahæstu keppa í næstu tveimur umferðum, í Bullseye í Reykjavík næstu tvö laugardagskvöld, en fjórir stigahæstu að loknum sex umferðum keppa síðan á úrslitakvöldinu, í Bullseye laugardagskvöldið 7. desember.
Sjallinn verður opnaður kl. 18.00 í kvöld og keppni hefst kl. 19.30. Vert er að geta þess að sýnt er beint frá öllum keppniskvöldunum á Stöð 2 Sport.