Fara í efni
Fréttir

Tvíhöfði SA-liðanna gegn SR í Laugardal

Bæði lið SA hafa á að skipa kanadískum markverði. Shawlee Gaudreault hefur verið öflug í marki SA undanfarin misseri, en Tyler Szturm er á sínu fyrsta tímabili með karlaliðinu.

Akureyrskt íshokkífólk heldur suður á bóginn í dag því bæði lið SA, kvenna- og karlaliðið, mæta liðum Skautafélags Reykjavíkur í Skautahöllinni í Laugardal síðdegis og í kvöld. Karlaleikurinn hefst kl. 16:45 og kvennaleikurinn kl. 19:30.

Mögulega verður loft lævi blandið í Laugardalnum í kvöld eftir síðustu viðskipti karlaliða SA og SR. Formaður og varaformaður SR hafa bæði haft uppi ásakanir á hendur Íshokkísambandi Íslands vegna þess hvernig tekið var á málum leikmanna af aganefnd sambandsins eftir leik liðanna á Akureyri 28. september. Tveir leikmenn frá hvoru liði verða í leikbanni í kvöld. Vonandi verður það þó íþróttin sjálf sem verður efst í huga þeirra sem koma að leikjum dagsins, það er að spila og vinna íshokkíleiki.

Liðin í Toppdeild kvenna hafa spilað mismarga leiki. Þar er Fjölnir á toppnum með 12 stig úr fimm leikjum, SA næst með sex stig eftir þrjá leiki og SR án stiga eftir fyrstu fjóra leiki liðsins

Lið SA og SR eru jöfn að stigum á toppi Toppdeildar karla með sex stig, SA eftir tvo leiki, en SR eftir þrjá. Þá kemur Fjölnir með þrjú stig úr fjórum leikjum og Skautafélag Hafnarfjarðar án stiga eftir fyrsta leik sinn.