Fara í efni
Fréttir

Toppslagur í Höllinni, hokkí og karfa syðra

Karfa, handbolti og hokkí hjá Akureyrarliðunum í dag.

Fjögur Akureyrarlið verða í eldlínunni í dag, þrjú á útivelli og eitt heima. Toppslagur verður í Grill 66 deildinni í handbolta þegar Þórsarar taka á móti liði Víkings. Stelpurnar í körfunni hjá Þór hefja leik í bikarkeppninni í dag og vonast eftir nýju ævintýri. Bæði lið Skautafélagsins fara suður og mæta liðum Skautafélags Reykjavíkur.

Þórsarar taka á móti liði Víkings í Grill 66 deild karla í handknattleik. Bæði liðin eru í toppbaráttunni, en Selfyssingar tylltu sér á toppinn með sigri í gærkvöld. Selfoss er með 14 stig úr níu leikjum, Víkingar með 12 stig úr átta leikjum og Þórsarar einnig með 12 stig, en úr sjö leikjum. Það er því fram undan hörð barátta um toppsætið í deildinni, sem gefur beinan þátttökurétt í efstu deild að ári, án þess að fara í úrslitakeppni.

  • Grill 66 deild karla í handknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 16
    Þór - Víkingur

Þór mætir ÍR á útivelli í 16 liða úrslitum VÍS-bikars kvenna í körfuknattleik í dag. ÍR-ingar sitja í 6. sæti af átta liðum í 1. deildinni, en Þórsstelpurnar hafa tekið sér stöðu í toppbaráttunni í efstu deild, Bónusdeildinni, og eru þar í 4. sæti þegar deildarkeppnin er hálfnuð. En bikarinn er önnur keppni, sigur og áfram eða tap og úr leik, ekkert þar á milli.

  • VÍS-bikar kvenna í körfuknattleik
    Skógarsel kl. 16
    ÍR - Þór

SR er á toppi hnífjafnrar Toppdeildar karla með 16 stig, en SA í 3. sætinu með 15 stig og á leik til góða. Greinilegt er að hið nýja Skautafélag Hafnarfjarðar ætlar að setja strik í reikning hinna liðanna. SFH hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum og hefur á tæpum tveim vikum unnið öll hin liðin í deildinni og nálgast þau óðfluga í stigasöfnuninni.

  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin í Reykjavík kl. 17:45
    SR - SA

Konurnar í SA og SR spila seinni leik tvíhöfðans í dag. SA er í 2. sæti deildarinnar með 14 stig úr sjö leikjum, en SR í 3. sæti með þrjú stig úr átta leikjum.

  • Toppdeild kvenna í íshokkí
    Skautahöllin í Reykjavík kl. 20:30
    SR - SA