Fara í efni
Fréttir

Þórsarar væntanlega með í úrslitakeppninni

Reynir Róbertsson var áberandi í sókninni og skoraði mest Þórsara, 33 stig. Boltinn fór ofan í körfuna andartaki efitr að þessi mynd var tekin undir lok leiksins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór vann Þrótt úr Vogum 99:95 í 1. deild karla í körfubolta í Höllinni á Akureyri í gærkvöldi. Liðið er í sjöunda sæti deildarinnar og ætti að komast í úrslitakeppni um eitt laust sæti í efstu deild. Efsta liðið fer beint upp en næstu átta berjast um hitt sætið.

  • Skorið eftir leikhlutum: 26:25 – 20:19 – 46:44 – 23:17 – 30:34 – 99:95

Þróttarar byrjuðu betur og voru yfir mest allan fyrsta leikhluta en Þórsarar komust yfir í lokin. Aftur komust gestirnir yfir um miðjan annan leikhluta en heimamenn höfðu þó betur. Í þriðja leikhluta juku þeir forystuna, náðu mest 14 stiga forskoti en í fjórða og síðasta hluta komust Þróttarar yfir eftir mjög góðan kafla – og að sama skapi slæman kafla Þórsara – en dæmið snerist við á ný og Þórsarar fögnuðu mikilvægum sigri. 

Þórsarinn Reynir Róbertsson fór á kostum í sóknarleiknum og gerði 33 stig, Harrison Butler kom næstur með 26 stig, og var einnig duglegur að taka fráköst, eins og Jason Gigliotti og Baldur Örn Jóhannesson. 

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Reynir Róbertsson 33/4/2, Harrison Butler 26/12/2, Jason Gigliotti 15/12/0, Baldur Örn Jóhannesson 11/10/3, Smári Jónsson 7/1/1, Michael Walcott 5/2/0, Hákon Hilmir Arnarsson 2/0/0.

Leikirnir sem Þór á eftir: Ármann (heima), Sindri (úti), Skallagrímur (heima).

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina