Fara í efni
Fréttir

Þórsarar töpuðu í 211 stiga leik á Selfossi

Reynir Barðdal Róbertsson í leik með Þórsliðinu í fyrravetur. Reynir var atkvæðamestur Þórsara í kvöld með 33 stig, 12 fráköst og níu stoðsendingar. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Sóknarleikur var í hávegum hafður í fyrsta deildarleik karlaliðs Þórs í körfuknattleik þegar liðið mætti Selfyssingum á útivelli í kvöld. Heimamenn á Selfossi unnu með 17 stiga mun í leik þar sem tapliðið skoraði 97 stig!

Jafnt var eftir fyrsta leikhlutann, 30-30, en Þórsarar þó með forystu lengst af fyrri hálfleiknum. Selfyssingar náðu yfirhöndinni undir lok fyrri hálfleiks og héldu henni út leikinn. Þórsarar náðu að minnka muninn niður í fimm stig undir lok þriðja leikhluta, en aftur slitu Selfyssingar sig frá þeim í lokafjórðungnum.

Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson var stigahæstur Þórsara með 33 stig og var einnig með flest fráköst og stoðsendingar í Þórsliðinu, tók 12 fráköst og átti níu stoðsendingar. 

  • Byrjunarliðið: Andrius Globys, Baldur Örn Jóhannesson, Orri Már Svavarsson, Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson og Smári Jónsson.
  • Gangur leiksins eftir leikhlutum: Selfoss - Þór (30-30) (31-27) 61-57 (24-20) (29-20) 114-97

Tölfræði leikmanna Þórs, stig-fráköst-stoðsendingar:

  • Reynir Barðdal Róbertsson 33 - 12 - 9
  • Andrius Globys 23 - 5 - 2
  • Baldur Örn Jóhannesson 19 - 11 - 3
  • Veigar Örn Svavarsson 15 - 8 - 3
  • Orri Már Svavarsson 3 - 1 - 0
  • Smári Jónsson 2 - 3 - 6
  • Páll Nóel Hjálmarsson 2 - 2 - 0

Athygli vekur að Þórsliðið var án bandaríska leikmannsins síns, Tims Dalger, en hann mun ekki vera kominn með leikheimild með liðinu.