Fara í efni
Fréttir

Teikningar Mikaels á Héraðsskjalasafnið

Björn Mikaelsson, sonur Mikaels Jóhannessonar, og Lára Ágústa Ólafsdóttir héraðsskjalavörður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Börn Mikaels Jóhannessonar afhentu á dögunum Héraðsskjalasafninu á Akureyri fjölmargar húsateikningar hans til varðveislu. Hjá Akureyrarbæ eru skráð 440 hús teiknuð af Mikael en vitað er af töluvert fleirum.

Safnið fékk einnig afhent teikningar Björns sonar Mikaels, sem bæði er menntaður húsasmiður og tækniteiknari og vann mikið með föður sínum. Björn er þó án efa þekktastur sem lögregluþjónn á Akureyri og síðar yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki til fjölda ára.

Mikael Jóhannesson varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1947. Hann nam arkitektúr við Edinborgarháskóla einn vetur en sneri að því loknu heim á ný. Hann starfaði á teiknistofu Kaupfélags Eyfirðinga 1950 - 1952, síðan vann Mikael í byggingavörudeild KEA og var deildarstjóri þar í um 30 ár. Þess má geta að hann átti sæti í bygginganefnd Akureyrarbæjar 1956 til 1982.

Árið 1955 fékk Mikael leyfi bygginganefndar á Akureyri til þess að teikna hús og rak eigin teiknistofu í áratugi samhliða föstu starfi hjá KEA. Mikael teiknaði mörg hundruð hús, flest á Akureyri en einnig mörg á Dalvík, Grenivík, Svalbarðseyri og í nágrannasveitum. 

Fyrsta húsið teiknaði Mikael árið 1948, einbýlishús á Grenivík, og með síðustu verkum hans var Kjarni, félagsheimili Náttúrulækningafélags Akureyrar í Kjarnaskógi. Það hús teiknaði Mikael 1999 en Kjarni var byggður nokkrum árum síðar.

Systkinin sem komu færandi hendi! Frá vinstri: Sigurður Mikaelsson, Sigrún Alda Mikaelsdóttir, Jóhannes Mikaelsson og Björn Mikaelsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Mikael teiknaði hið þekkta hús leigubílastöðvar bæjarins, BSO – Bifreiðastöðvar Oddeyrar – í miðbænum. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Mikael teiknaði þessa fjögurra húsa röð við Hvannavelli á Oddeyri, íbúðarhúsin númer 2, 4 , 6 og 8. Mynd: Skapti Hallgrímsson