Fara í efni
Fréttir

Hver var Jóninna? – Af hverju Jóninnuhagi?

SÖFNIN OKKAR – 52

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Gatan Jóninnuhagi í Hagahverfi á Akureyri er kennd við Jóninnu Sigurðardóttur. Hún var matreiðslukennari og hafði mikil áhrif á íslenska matargerð snemma á 20. öldinni, sérstaklega með útgáfu matreiðslubóka. Hennar þekktasta bók var Matreiðslubók fyrir fátæka og ríka, sem kom út árið 1915 og seldist strax upp. 1916 var hún endurútgefin í sömu mynd en 1927 var Jóninna búin að bæta miklu við bókina og gaf hana aftur út undir titilinum Matreiðslubók.

Jóninna var fædd 11. apríl 1879 og ólst upp á Draflastöðum í Fnjóskadal, 18 ára gömul hélt hún í Kvennaskólann á Akureyri og þaðan til Noregs þar sem hún nam hússtjórn. Eftir Noregsdvölina hélt hún til Danmerkur og fór þar í hússtjórnar- og kennaranám. Þegar hún kom heim árið 1903 fékk hún styrk frá Búnaðarfélagi Íslands til að ferðast um og kenna húsmæðrum á Norðurlandi matreiðslu.

  • Skjal dagsins frá Héraðsskjalasafninu er póstkort sem Jóninna skrifaði bróður sínum, Sigurði Sigurðssyni, árið 1901. Sigurður, sem kenndi sig ætíð við Draflastaði, var þá við nám í landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann lauk námi þar árið eftir, varð í kjölfarið skólastjóri á Hólum og gegndi því starfi til 1919. Sigurður var Búnaðarmálastjóri frá 1923 til 1935. 

1907 tók Jóninna að sér að reka nokkurs konar matreiðsluskóla í húsnæði Gróðrarstöðvarinnar á Akureyri þar sem mikil áhersla var lögð á að nota heimaræktað í matreiðslu. 1915 keypti hún húsnæði og hóf þar eigin rekstur undir nafninu Hótel Goðafoss.

Á síðari æviárum sínum einbeitti hún sér að því að stofnaður yrði húsmæðraskóli á Akureyri. Skólinn tók til starfa 1945 og var Jóninna formaður skólanefndar fyrst um sinn. Jóninna var sæmd riddarakrossi Fálkaorðunnar 1959.

Jóninna Sigurðardóttir lést á Akureyri þann 19. september 1962.