Fara í efni
Fréttir

Styrkja konur sem vinna að loftslagslausnum

Sesselja Barðdal, lengst til vinstri, Ragnheiður H. Magnúsdóttir, Linda Fanney Valgeirsdóttir og Rakel Eva Sævarsdóttir.

Norræna samstarfsverkefnið Tundra, sem Drift EA stýrir, miðar að því að hvetja konur til þess að vinna að loftslagslausnum, efla tengslanetið og finna fjármögnunarleiðir fyrir verkefni þeirra.

Erfitt fyrir konur að fá fjármögnun

„Loftslagsvandinn er vandamál sem allir eru að reyna að finna lausnir á, en enn sem komið er, er engin einföld lausn til. Það er hins vegar staðreynd að konur eru líklegri til að koma með lausnir inn í samfélagsleg verkefni, sem oft á tíðum tengjast líka loftslagsvánni. Þess vegna finnst okkur þetta mjög spennandi verkefni sem snýr að því að styrkja kvenfrumkvöðla á Norðurslóðum, sem eru að vinna verkefni tengd loftslagsvánni, hvað varðar fjármögnun, tengslanet og viðskiptatækifæri,“ segir Sesselja Barðdal, framkvæmdastýra Driftar EA, um norræna samstarfsverkefnið Tundra sem Drift EA tekur nú þátt í.  Að sögn Sesselju er meginástæðan fyrir því að Tundra prógrammið varð til sú að konur sem eru að fást við loftlagslausnir, orku- eða hringrásartengd verkefni, eiga erfitt með að fá þá fjármögnun sem þær þurfa til að koma mikilvægum verkefnum áfram. „Þetta bil er mjög áhugavert en jafnframt óþolandi, og eitthvað sem við ættum að hafa áhyggjur af,“ segir Sesselja. 

Ef við ætlum að taka þátt í því að leysa loftslagsvandamálið á þessu svæði okkar þá gerist það ekki að sjálfu sér, en með því að leiða saman öflugan hóp kvenna sem hafa áhuga á lausnum á loftslagsvánni, myndast meiri þrýstingur á að finna lausnir.

Samstarfsverkefni milli Íslands, Noregs og Finnlands

Drift EA hýsir og stýrir Tundra verkefninu, sem er samstarfsverkefni milli Íslands, Noregs og Finnlands. Hugmyndin að verkefninu kom frá fjórum íslenskum konum, þeim Lindu Fanneyju Valgeirsdóttur, framkvæmdastjóri Alor, sem sérhæfir sig í framleiðslu og geymslu á sólarorku, Ragnheiði H. Magnúsdóttur, fjárfesta, tæknimanneskju og stjórnarformanns í mörgum nýsköpunarfyrirtækjum, Rakel Evu Sævarsdóttur, sem er sérfræðingur í sjálfbærni og fjármálum og Sesselju Barðdal, framkvæmdastýru Drift EA, en hún hefur komið nálægt ýmsu frumkvöðlastarfi. Að sögn Sesselju hittust þær fjórar fyrir ári síðan á ráðstefnunni Nordic Circilair Summit og fóru þá að ræða þessi mál, en allar eiga þær það sameiginlegt að brenna fyrir því að efla kvenfrumkvöðla og hraða loftslagstengdum verkefnum. „Við ákváðum að bretta sjálfar upp ermar og teikna upp prógramm sem við erum vissar um að geti hjálpað til í stöðunni,“ segir Sesselja. Þær fengu svo norska nýsköpunarfyrirækið Arctic Pioneers í Norður-Noregi til liðs við sig sem og finnska fyrirtækið Mixi svo úr varð norræna samstarfsverkefnið Tundra.

Stuðningur við kvenfrumkvöðla

„Við erum sem sagt að fara af stað með tilraunaverkefni (pilot-verkefni) sem byrjar þann 13. nóvember og stendur í fimm vikur. Á þessum tíma ætlum við að kortleggja hvaða konur eru að vinna að þessum málum á Norðurslóðum og hvaða fjárfestar eru að styðja við svona verkefni. Markmiðið er að tengja kvenfrumkvöðla sem eru að vinna að loftlagstengdum verkefnum á þessu svæði saman svo þær geti stutt við hvora aðra og jafnvel unnið saman á milli landa eða lært hvor annarri. Þátttakendur munu fá sérsniðinn stuðning, leiðsögn, fjármögnunartækifæri, aðgang að neti sérfræðinga í iðnaði eða öðru sem þörf er á,“ segir Sesselja og hvetur fyrirtæki sem eru að vinna að lausnum tengdum loftslagsvánni með konur í fararbroddi að setja sig í samband. Segir hún að viðbrögðin við prógramminu hafi verið mjög góð en verkefnið fékk nýlega styrk frá Nordic Gender Equality Fund. Vonast hún til þess að þetta verði aðeins upphafið og að framhaldið verði stærra þriggja ára prógramm. „Ég er mjög stolt af því að vera hluti af því teymi sem hefur byggt verkefnið sem hið magnaða Drift EA mun keyra áfram fyrir hönd íslenska hópsins,“ segir Sesselja og bætir við; „Ef við ætlum að taka þátt í því að leysa loftslagsvandamálið á þessu svæði okkar þá gerist það ekki að sjálfu sér, en með því að leiða saman öflugan hóp kvenna sem hafa áhuga á lausnum á loftslagsvánni, myndast meiri þrýstingur á að finna lausnir.“

Ávinningur og markmið  Tundra verkefnisins:

  • Styðja og styrkja kvenkyns frumkvöðla á Norðurslóðum til að þróa loftslagstengd verkefni með stuðningi og úrræðum.
  • Skapa nýjan vettvang sem styður við fyrirtæki og aðstoðar þau við að finna ný tækifæri til að stækka, finna nýja viðskiptavini og eflast á markaði.
  • Stuðla að tengingum milli aðila sem leita loftslagslausna og nýsköpunarfyrirtækja sem vinna að slíkum lausnum.
  • Auka nýsköpunarstuðning og fjölga fyrirtækjum á Norðurslóðasvæðinu, sem mun jafnframt styðja við nýsköpunarfyrirtæki á afskekktum svæðum eða í dreifðum byggðum.
  • Auðvelda samstarf milli Norðurlandanna á Norðurskautssvæðum vegna breytinga af völdum loftslagsmála.