Fara í efni
Fréttir

Stöðutákn framtíðarinnar

Evrópska samgönguvikan

Komstu á hjóli? Enn fæ ég þessa spurningu stundum. Sjaldnar þó en áður fyrr. Kannski fólk sé orðið minna hissa á þessu. Kannski er nú viðurkennt að hjóla flestra sinna ferða. Eða þykir þetta enn jafnskrýtið og fólk bara hætt að vera hissa á mér?

Þegar fjölskyldan mín flutti heim frá Svíþjóð fyrir hálfri öld voru reiðhjól handa öllum í farangrinum. Mamma hélt til dæmis uppteknum hætti sínum frá Svíþjóð og hjólaði oft í búðina eða annarra ferða. Þá gall við úr krakkahópi: „Kelling á hjóli!“ Nokkrum árum síðar upphófst skokkbylgjan. Þá var hrópað: Einn-tveir, einn-tveir …! Naut stara á nývirki.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og heldur áfram að renna. Mikið er þó órunnið enn. Þótt nú í sumar hafi loksins farið að örla á alvöru samgöngumannvirkjum fyrir reiðhjól er Akureyri enn einhver mesti bílabær sem um getur. Stór hluti bæjarbúa fer allra sinna ferða á einkabílnum, jafnvel stystu spotta. Kannski 300 metra á stórum jeppa. Og þetta er ekki bara Akureyri. Ég hef lent í umferðarteppu á Höfn í Hornafirði! Hvað er það?

Einhvern tíma setti ég mér þá meginreglu að snerta ekki bílinn ef leiðin væri einn kílómetri eða styttri. Þá hjóla ég í staðinn – eða geng. Þetta er fyrirtaks regla. Heilbrigt fólk á öllum aldri getur gengið einn kílómetra á tíu til tólf mínútum. Á hjóli er maður oftast fljótari en á bíl svona stuttar leiðir. Ef kílómetri vex fólki í augum getur það byrjað á hálfum. Það er um það bil vegalengdin frá Ráðhústorgi að Samkomuhúsinu. Fljótlega kemur á daginn að fyrir flesta getur þetta takmark auðveldlega verið miklu meira en einn kílómetri.

Reiðhjól verða sífellt betri og á síðari árum hafa rafhjólin bæst við. Þar hafa orðið geysilegar framfarir og úrvalið orðið þannig að heppilegt rafhjól ættu allir að geta fundið sér. Hundruð rafhjóla seljast á Akureyri á hverju ári. Samt hef ég á tilfinningunni að þau séu aðallega keypt fyrir tómstundir en síður sem farartæki. Það er synd því reiðhjól – og ekki síst rafhjól – er miklu betra farartæki til daglegra samgangna en bíll, einfalt, fljótlegt, ódýrt, gott fyrir umhverfið og hollt. Veður og færð er sáralítið vandamál.

En af hverju heldur Akureyri þá áfram að vera svona mikill bílabær? Hér standa fín rafhjól í geymslum um allan bæ og eigendur flestra þeirra fara á bílnum í vinnuna. Rafhjólið er í mesta lagi notað til að hjóla í frístundum. Sumir nota þau sáralítið. Hvað er hér á ferðinni?

Er það bara vani? Er það spéhræðsla? Er það af því að bíllinn hefur orðið að stöðutákni í nútímanum? Er hluti af því að vera maður með mönnum að sjást á sæmilega frambærilegum bíl? Óttast fólk að samferðafólkið fari að velta fyrir sér hvort það hafi misst prófið ef það kemur ekki á bílnum, hvort það hafi ekki efni á að reka bíl, hvers vegna það hafi ekki beðið um far … ? „Missti hann vinnuna?“ „Er hann í-ðí?“ Eru afsakanirnar fyrir að koma á bíl alltaf góðar?

Og enn spyr ég: Er bíll raunverulega gott stöðutákn? Er kannski hið eina sanna stöðutákn að ganga, hjóla og taka strætó þegar við blasir glíman við afleiðingar loftslagsbreytinga og barátta gegn því að afkomendurnir búi við verri kjör en við gerum nú. Í því ljósi verður bíllinn ekkert voðalega töff. Frekar hallærislegur bara. Jafnvel rafmagnsbíllinn. Öllum bílum fylgir nefnilega álag á umhverfið og lofthjúpinn. Allir bílar eru dýrir í rekstri, bæði fyrir pyngjuna og umhverfið. Allir bílar geta valdið umferðarslysum. Allir bílar slíta götunum, búa til svifryk og draga úr hollri hreyfingu fólks. Allir bílar taka pláss sem væri hægt að nota betur fyrir fólk.

Lítum á reiðhjólin sem samgöngutæki, ekki eingöngu leiktæki í frístundum. Sprækt hjólafólk getur hjólað Akureyri endanna á milli á 10-15 mínútum hjálparlaust. Á rafhjóli geta þetta allir sem á annað borð geta hjólað. Svo er líka gott stöðutákn að ganga til vinnu. Eða taka strætó. Hann er ókeypis! Þarna eru stöðutákn framtíðarinnar.

Pétur Halldórsson er kynningarstjóri Skógræktarinnar og hjólreiðamaður.