Smíði kirkjunnar í Grímsey mjakast áfram
„Grímseyingar láta ekki deigan síga og halda staðfastlega áfram vinnu við að klára byggingu nýrrar Miðgarðakirkju. Fyrr í vikunni var tekin staða á öllu efni sem tiltækt er og lokið var við að einangra kirkjuturninn.“
Þannig hefst umfjöllun sem birtist á vef Akureyrarbæjar á fimmtudaginn. Þar segir að allir sem vettlingi geti valdið vinni í sjálfboðavinnu við bygginguna undir stjórn Herberts Hjálmarssonar yfirsmiðs sem hefur komið nokkrar ferðir út í eyju síðan í haust og hjálpað við skipulag og framkvæmd verksins.
Mynd: Anna María Sigvaldadóttir
Að sögn Alfreðs Garðarssonar, formanns sóknarnefndar, miðar verkinu ágætlega og standa vonir til að í næstu ferð smiðsins út í eyju verði hægt að lekta kirkjuna (undirbúa veggi fyrir raflagnir og klæðningu) og flota gólfið, auk þess að ganga frá stuðlabergssteinum undir altarið.
„Í liðinni viku fékk kirkjan 300.000 króna styrk úr samfélagsverkefnasjóði Norðurorku 2024 sem kemur sér ákaflega vel. Þrátt fyrir að íbúar séu fúsir til að vinna alla þá sjálfboðavinnu sem þarf þá er óhjákvæmilegt að greitt sé fyrir bæði efni og sérþekking fagmanna, auk þess sem flutningur á efni og fólki er kostnaðarsamur.“
Mynd: Anna María Sigvaldadóttir
Mynd: Anna María Sigvaldadóttir