Slökkt á hitakerfinu í kirkjutröppunum
Vegna bilunar hefur verið slökkt á snjóbræðslukerfinu í kirkjutröppunum tímabundið. Þar af leiðandi getur myndast meiri hálka en venjulega og er fólk beðið um að fara sérstaklega varlega.
Unnið er að því að greina orsök bilunarinnar, að því er segir á heimasíðu Akureyrarbæjar, og meta hvernig hægt verði að bregðast við. Kirkjutröppurnar eru upphitaðar með rafmagni, en um nokkurt skeið hefur verið ólag á hitastrengjum. Undanfarið hafa tíðar útleysingar skapað vandamál, enda er slæmt þegar hitalagnir ná að bræða snjó en slá svo út í frosti með tilheyrandi klakamyndun. Til að tryggja öryggi í kirkjutröppunum við þessar aðstæður er talið rétt að moka tröppurnar með handafli þegar þess gerist þörf og sandbera reglulega.
Þess er og vert að geta að lýsing meðfram kirkjutröppunum er í ólagi og hefur verið slökkt á henni, en þess í stað verður jólalýsingunni leyft að lifa út veturinn. Búið er að hanna nýja lýsingu fyrir tröppurnar og göngustíg meðfram Akureyrarkirkju og er stefnt að því að hún verði komin í gagnið næsta haust.