Fara í efni
Fréttir

Slæmur í mjöðminni en ákvað að prófa!

Þorbergur Ingi Jónsson eftir að hann kom í mark í ofurhlaupinu í Sviss í dag. Myndir af samfélagsmiðlum keppnishaldara.

„Ég var alveg óviss um að fara í hlaupið, ég hef verið svo helv... slæmur í mjöðminni. En ég ákvað samt að fara út og láta slag standa,“ sagði ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson við Akureyri.net eftir að hann sigraði með glæsibrag í 71,8 kílómetra utanvegahlaupi í Sviss við erfiðar aðstæður eins og greint var frá fyrr í dag.

Áhugasamir geta nú velt fyrir sér hve Þorbergur hefði unnið með miklum yfirburðum hefði hann gengið heill til skógar! Hann kom nefnilega lang fyrstur í mark, eins og kom fram í fyrri frétt; keppti í flokki 40-44 ára en sá næsti í heildarkeppninni, sem kom tæplega sex mínútum á eftir Þorbergi Inga í mark, keppti í flokki 20-34 ára.

Frábærar íslenskar aðstæður

„Það voru frábærar íslenskar aðstæður í dag,“ sagði ofurhlauparinn við Akureyri.net. „Hlaupið var lækkað vegna aðstæðna, það var ekki farið jafn hátt og upphaflega stóð til heldur mest upp í 2200 metra hæð. Það var kalt og snjóaði aðeins á okkur.“

Þorbergur Ingi sagði að sér hefði ekki liðið nógu vel í byrjun „en ég náði að útfæra hlaupið mjög vel. Ég var í 19. sæti á fyrstu drykkjarstöð en vann mig upp og varð sterkari og sterkari eftir því sem á leið á meðan aðrir fóru að dala. Ég átti því virkilega gott hlaup, að minnsta kosti seinni helminginn og náði að klára mjög vel. Ég er því virkilega ánægður með þetta.“

Frétt Akureyri.net fyrr í dag:

Glæsilegur sigur Þorbergs Inga í Sviss