Fara í efni
Fréttir

Skógarböðin hlutu sprotaverðlaun

Sigríður María Hammer, einn eigenda Skógarbaðanna, tók við viðurkenningu fyrirtækisins sem Sproti ársins. Með henni á myndinni er starfsfólk Markaðsstofu Norðurlands, Katrín Harðardóttir, Hjalti Páll Þórarinsson, Sigríður, Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, og Halldór Óli Kjartansson. Aðsendar myndir.

Skógarböðin fengu viðurkenningu sem sproti ársins á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi.

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin í Austur-Húnavatnssýslu í vikunni. Þátttakendur fóru í heimsóknir til fyrirtækja á svæðinu og skoðuðu áhugaverða staði. Hátíðinni lauk með kvöldverði og skemmtidagskrá þar sem þrjú fyrirtæki fengu viðurkenningar sem fyrirtæki ársins, sproti ársins og hvatningarverðlaun ársins.

  • Fyrirtæki ársins: Geo Travel í Mývatnssveit.
  • Sproti ársins: Skógarböðin
  • Hvatningarverðlaun ársins: Sveitarfélagið Húnabyggð

Fulltrúar verðlaunahafanna ásamt starfsfólki Markaðsstofu Norðurlands. Frá vinstri: Hjalti Páll Þórarinsson, Katrín Harðardóttir, Sigríður María Hammer frá Skógarböðunum, Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, Anton Freyr Birgisson, eigandi Geo Travel, Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MN, og Halldór Óli Kjartansson.

Í tilkynningu Markaðsstofu Norðurlands um viðurkenningarnar eru umsagnir um verðlaunahafana og starfsemi þeirra.

Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi.

Að þessu sinni hlýtur Geo Travel í Mývatnssveit viðurkenninguna fyrirtæki ársins. Geo Travel er lítið fjölskyldufyrirtæki sem hefur undanfarin ár smám saman verið að styrkja sína starfsemi og auka vöruframboð og umsvif. Stefna fyrirtækisins er að bjóða gestum upp á einstakar upplifanir, en jafnframt hafa ætíð náttúrvernd og sjálfbærni að leiðarljósi. Fyrirtækið var stofnað af heimafólki og fyrstu árin bauð fyrirtækið aðallega upp á ferðir inn á hálendið yfir sumarið. Slíkar ferðir eru enn stór hluti starfseminnar, en á síðari árum hefur fjölbreytnin aukist. Geo Travel hefur lagt sérstaka áhersla á að auka framboð á vetrarafþreyingu og er í dag með eitt fjölbreyttasta úrval af vetrarafþreyingu á Norðurlandi. Sú áhersla, ásamt markvissri markaðssetningu, hefur skilað sér í því að umsvifin yfir veturinn hafa aukist verulega og er fyrirtækið að skapa fleiri störf en áður. Fyrirtækið leggur einnig mikið upp úr góðu samstarfi við önnur ferðaþjónustufyrirtæki og hefur barist ötullega fyrir framgangi og uppbyggingu ferðaþjónustu í Mývatnssveit, og raunar á Norðurlandi öllu. Þetta framlag Geo Travel til ferðaþjónustunnar hefur reynst ómetanlegt og er til fyrirmyndar. Anton Freyr Birgisson eigandi Geo Travel tók við viðurkenningunni.


Anton Freyr Birgisson, eigandi Geo Travel, ásamt starfsfólki MN.

Viðurkenningin Sproti ársins er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Baðmenning Íslendinga vekur jafnan mikla athygli erlendra ferðamanna og það þykir einstök upplifun að baða sig upp úr vatni sem kemur heitt upp úr jörðinni. Það er þó ekki nóg að benda bara á vatnið því upplifunin snýst um svo margt meira. Norðurland hefur þá sérstöðu að hér er gott úrval baðstaða og mikil fjölbreytni einkennir þá. Skógarböðin – Forest Lagoon hlýtur viðurkenninguna Sproti ársins. Fyrirtækið kom eins og stormsveipur inn á þennan markað með upplifun sem hefur vakið mikla athygli, bæði innanlands og erlendis. Það er ekki síst vegna fagmennsku í þjónustu við gesti, sem upplifa það frá fyrstu sekúndu að hugað sé að öllum smáatriðum. Umhverfi baðanna er enda einstakt og gjörólíkt því sem boðið er upp á annarsstaðar. Þannig hefur tekist að skapa vöru sem er bæði eftirtektarverð og eftirsótt og það hefur sýnt sig að eigendur fyrirtækisins náðu að nýta tækifærið sem gafst til að bjóða upp á nýja afþreyingu í svo mikilli nálægð við Akureyri. Áform eru um frekari uppbyggingu á svæðinu og ef jafn vel tekst til og með böðin má fólk í ferðaþjónustu og gestir eiga von á góðu. Sigríður María Hammer, einn af eigendum Skógarbaðanna tók við viðurkenningunni.

Hvatningarverðlaun ársins eru veitt til fyrirtækis eða sveitarfélags sem býður upp á þjónustu sem byggir vel undir ímynd Norðurlands og er orðið þekkt meðal innlendra og erlendra ferðamanna fyrir einstaka upplifun.


Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, ásamt starfsfólki MN.

Hvatningarverðlaun fær að þessu sinni sveitarfélagið Húnabyggð. Þetta er í fyrsta skipti sem viðurkenning á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar er afhent til sveitarfélags en nú er rík ástæða til þar sem Húnabyggð, áður Húnavatnshreppur hefur staðið að miklum metnaði að uppbyggingu á sögustaðnum Þrístöpum. Verkefnið var sett í fyrstu áfangastaðaáætlun Norðurlands og þróað í góðu samstarfi við Markaðsstofuna. Með þessari uppbyggingu er komið nýtt aðdráttarafl á Norðurlandi, byggt á menningu og sögu, á svæði þar sem nauðsynlegt var að byggja upp nýjan segul sem væri aðgengilegur bæði einstaklingum og hópum. Uppbyggingunni er ekki lokið en nú þegar er þessi segull að verða þekktur meðal bæði innlendra og erlendra ferðamanna og býr til ástæðu til að staldra við, kynna sér sögu og náttúru svæðisins auk þess sem Þrístapar skapa tækifæri fyrir nálæga aðila á uppbyggingu ferðaþjónustu. Verkefni sem þetta er til fyrirmyndar og vonandi að fleiri sveitarfélög fylgi á eftir með kraftmikilli uppbyggingu í ferðaþjónustunni. Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar tók við viðurkenningunni.