Fara í efni
Fréttir

Segir sögu skipasmíða á Akureyri í Húna í dag

Þorsteinn Pétursson - Steini Pje - um borð í Húna II. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Húni II siglir frá flotbryggjunni við Hof klukkan 17.00 í dag og eru allir velkomnir á meðan pláss leyfir. Siglingin tekur um klukkustund.

Áhöfnin á Húna segir frá skipinu á Iðnaðarsafninu í dag en þar er sérstök dagskrá í tilefni sjómannadagsins, sem er á sunnudaginn. Opið er á Iðnaðarsafninu til klukkan 16.30 en þar eru nú til sýnis skipa- og bátamódel ásamt ýmsum öðrum hlutum tengdum sjómennsku.

Boðið verður upp á rúsínuna í pylsuendanum um borð í Húna því á siglingunni í dag mun Árni Björn Árnason segja sögu skipasmíða á Akureyri.

„Akureyri var á sínum tíma mekka skipasmíða hér á landi. Af 12 eikarskipum yfir 100 brúttótonnum voru þrjú smíðuð hér, Snæfellið og Húni II hjá KEA en Fagriklettur hjá Nóa,“ segir Þorsteinn Pétursson, Steini Pje, forsprakki Húnaævintýrsins.

Húni II er eina eikarskipið af þessari stærð sem hefur varðveist, að sögn Steina. Allir eru velkomnir í siglinguna klukkan 17.00 í dag sem fyrr segir, og á sjómannadaginn; þá siglir Húni klukkan 13.00, 14.00 og 15.00, frá flotbryggjunni við Hof.

Á kortinu má sjá skipasmíðastöðvar á Akureyri í gegnum tíðina.