Fara í efni
Fréttir

Sannfærandi KA-menn í undanúrslit

Harley Willard (8), Bjarni Aðalsteinsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson glaðir í bragði eftir að Bjarni náði forystunni fyrir KA í kvöld, eftir hornspyrnu Willards. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn unnu mjög sannfærandi sigur á Frömurum, 3:0, á heimavelli í kvöld í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu. Þetta er þriðja árið í röð sem KA kemst í fjögurra liða úrslit en liðið tapaði úrslitaleiknum fyrir Víkingi í fyrra.

Allt annar bragur var á leik KA-liðsins en oftast áður í sumar. Leikmenn voru áræðnari, kraftmeiri og öruggari í öllum aðgerðum en þeir hafa verið og sigurinn var afar sanngjarn.

Staðan í hálfleik var 1:0 en forysta heimamanna hefði auðveldlega getað verið meiri. Það verður að segjast eins og er að Framarar ollu miklum vonbrigðum; þeir voru nánast í hlutverki áhorfandans í fyrri hálfleik þegar KA-menn höfðu öll tök í leiknum og heimamenn voru klaufar að nýta ekki færin og vera með meira forskot í hálfleik. 

Leikur gestanna skánaði í seinni hálfleik en þeir ógnuðu sigri KA-strákanna aldrei að neinu marki. Þegar leið á hálfleikinn náðu Framarar að halda boltanum töluvert en KA-menn vörðust vel og lentu ekki í neinum vandræðum.

Bjarni Aðalsteinsson gerði fyrsta markið á 6. mínútu með þrumuskoti úr vítateignum eftir hornspyrnu Harley Willard og fagnar hér ásamt Birgi Baldvinssyni. Birgir og Kári Gautason voru kraftmiklir og flottir í bakvarðastöðunum.



Framarar sluppu fyrir horn á 10. mínútu þegar Sveinn Margeir Hauksson kom boltanum framhjá Ólafi markverði (á myndinni að neðan), boltinn stefndi í markið en skotið var laust og varnarmaður náði að bjarga á línu.

Skömmu síðar fékk Harley Willard dauðafæri eftir góðan undirbúning Sveins Margeirs en hitti ekki markið og Bjarni Aðalsteinsson þrumaði að marki utan teigs en boltinn fór framjá.

Á lokaandartökum fyrri hálfleiks var Sveinn Margeir aðeins rúmlega hársbreidd frá því að skora. Hallgrímur Mar sendi boltann fyrir markið af vinstri kanti, og Sveinn Margeir var stutt frá markinu - eins og sjá má á myndunum hér að neðan - en þrumaði í stöng og boltinn hrökk út í teig.

Bjarni Aðalsteinsson kom KA í 2:0 með föstu skoti af stuttu færi á 78. mín. Ólafur Íshólm varði skot Sveins Margeirs með tilþrifum en boltinn hrökk til Bjarna sem kláraði dæmið fagmannlega.

Hallgrímur Mar Steingrímsson innsiglaði sigurinn með þriðja marki leiksins á 89. mín. Framarar voru í sókn en KA náði boltanum, á miðjum eigin vallarhelmingi, og Sveinn Margeir Hauksson átti langa, hárnákvæma sendingu fram völlinn á Hallgrím Mar. Hann komst inn á vítateig og skoraði með lúmski skoti utarlega úr teignum vinstra megin, þótt varnarmaðurinn sterki, Kyle McLagen, gerði hvað hann gæti til að verjast honum. Hallgrímur fagnaði með því að taka ofan fyrir stuðningsmönnum KA!

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna