Fara í efni
Fréttir

Samkeppnislönd styðja betur við landbúnað

Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa á Akureyri, skrifaði áhugaverða grein sem birtist á Akureyri.net fyrir skömmu, um stöðu íslensks landbúnaðar. Hann heggur í sama knérunn í dag með greininni Erfið staða bænda nú er okkur sem samfélagi að kenna.

Hólmgeir segir landbúnaði og matvælaframleiðslu hérlendis ekki búið sanngjarnt samkeppnisumhverfi. Vörður sé ekki staðinn um greinina.

„Stuðningur við greinina er í skötulíki og þannig ekkert í líkingu við það sem var fyrir 10-15 árum síðan og heldur ekki nálægt því sem nágrannalönd og samkeppnislönd okkar gera til að styðja við og verja sína landbúnaðar- og matvælaframleiðslu. Samt ætlum við greininni að gegna lykilhlutverki í samfélaginu við að tryggja fæðu- og matvælaöryggi okkar sem þjóðar.“

Hólmgeir rifjar upp að við gerð búvörusamninga árið 2005 var ríkisstuðningur til framleiðslu mjólkur fyrir innanlandsmarkað festur í krónum talið við framleiðslu og sölu á 106 milljónum lítra mjólkur. Með vaxandi framleiðslu frá þeim tíma hafi greiðslurnar þynnst út og deilist stuðningurinn nú út á 149 milljónir lítra mjólkur sem er greiðslumarkið eða kvótinn í dag.

Hann segir:

  • Heildarstuðningurinn við mjólkurframleiðsluna, þessa stóru atvinnugrein, var á síðasta ári einungis um 7,8 milljarðar
  • Rekstur RÚV kostaði samfélagið um 5,1 milljarð í fyrra
  • Rekstur Alþingis kostaði um 4,4 milljarða á síðasta ári

Í greininni fer Hólmgeir yfir stöðuna í ítarlegu máli og leggur fram ýmsar tillögur til úrbóta.

Smellið hér til að lesa grein Hólmgeirs.