Samherji með stóran bás á Seafood Expo Global
Alþjóðlega sjávarútvegssýningin í Barcelona á Spáni Seafood Expo Global hófst í morgun og er Samherji þar með veglegan bás, að því er segir á vef fyrirtækisins í dag. Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóri Ice Fresh og Seagold segir sýninguna mikilvægan vettvang fyrir sölu- og markaðsstarfið. Ice Fresh Seafood og Seagold sjá um að selja afurðir Samherja og fleiri fyrirtækja um víða veröld.
Seafood Expo Global er undir venjulegum kringumstæðum haldin árlega en vegna heimsfaraldursins þurfti að fella hana niður í tvígang. Sýningin hefur til þessa verið haldin í Brussel í Belgíu en ákveðið var að flytja hana til Spánar, þar sem aðstæður eru á ýmsan hátt taldar betri. Gústaf Baldvinsson segir að á Seafood Expo Global gefist kjörið tækifæri til að ræða málin við núverandi viðskiptavini og sömuleiðis stofna til nýrra viðskiptasambanda.
Góður undirbúningur
„Þetta mjög stór sýning og hérna eru öll helstu fyrirtækin, hvort sem um er að ræða veiðar, vinnslu eða sölu. Kannski má líkja sýningunni við árshátíð alþjóðlegs sjávarútvegs, þar sem allir mæta. Hallirnar sem hýsa básana eru nokkrar og í raun og veru er ekki hægt að komast yfir að skoða alla sýninguna, þótt viljinn væri fyrir hendi,“ segir Gústaf á vef Samherja.
„Básinn okkar er af stærri gerðinni, er vel útbúinn á allan hátt og auðvitað er íslenskur fiskur á boðstólum, sem kom ferskur hingað í gær. Það tekur langan tíma að undirbúa slíka sýningu og er að mörgu að huga. Básinn er á tveimur hæðum, þannig að við getum tekið vel á móti gestum og í næði farið yfir ýmis mál með okkar viðskiptavinum. Við höfum lært það af reynslunni að góður og hnitmiðaður undirbúningur skilar sér í flestum tilvikum.“
Fundað frá morgni til kvölds
„Markmiðið er ekkert sérstaklega að ganga frá samningum, heldur er verið að treysta viðskiptasambönd og sömuleiðis stofna til nýrra. Starfsfólk okkar er með bókaða fundi frá morgni til kvölds, þetta er hörku vinna en líka skemmtileg og gefandi. Ég tala nú ekki um þegar loksins er hægt á nýjan leik að halda slíka sýningu að loknum heimsfaraldri,“ segir Gústaf Baldvinsson.
- Á myndinni eru Gústaf Baldvinsson, til vinstri, og Steinn Símonarson á bás Samherja á Seafood Expo Global í Barcelona í dag.