Röskun á dreifingu rafmagns í kvöld og nótt
Hluti Brekkunnar verður án rafmagns frá kl. 23 í kvöld fram til kl. sex í fyrramálið vegna vinnu við dreifikerfi Norðurorku, samkvæmt tilkynningu á vef Akureyrarbæjar. Svæðið sem um ræðir má sjá á myndinni með fréttinni, en innan þess eru meðal annars Víðilundur, hluti Einilundar og Akurgerðis og athafnasvæði KA.
Í tilkynningunni er vakin athygli á að umferðarljós á gatnamótum Þingvallastrætis og Dalsbrautar muni detta út vegna þessa og einnig gangbrautarljós við Dalsbraut. Þegar rafmagni verður hleypt á aftur er hætt við að götuljósin komist ekki samstundis í samt lag en fylgst verður náið með því að þau virki sem skyldi.
Bílstjórar og aðrir vegfarendur eru beðnir að sýna sérstaka aðgát í umferðinni á þessu svæði í fyrramálið ef umferðarljós verða ekki komin í samt lag.
Á heimasíðu Norðurorku, no.is, er að finna góð ráð við rafmangsrofi.