Ríkið verður að fjármagna málaflokkinn betur
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir sorglegt þegar traustu og góðu starfsfólki er sagt upp en slíkt sé ekki gert nema af illri nauðsyn. Akureyri.net sendi henni sömu spurningar og oddvitum flokkanna í bæjarstjórn, í kjölfar þess að Heilsuvernd, sem tók við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar 1. maí, sagði upp starfsfólki í vikunni. Ásthildur segist hafa óttast, alveg sama hver tæki við rekstri heimilanna, að fólki yrði sagt upp ef ríkið legði ekki meira fé í reksturinn.
Kemur það þér á óvart að fólki með langa starfsreynslu skuli sagt upp, væntanlega til þess að ráða starfsfólk á lægri launum?
„Það er alltaf mjög sorglegt og hryggir mig mjög mikið þegar traustu og góðu starfsfólki er sagt upp störfum. Við vitum hins vegar að menn gera slíkt alls ekki nema af illri nauðsyn. Akureyrarbær gat ekki rekið hjúkrunarheimilin áfram með þeirri meðgjöf sem kom frá ríkinu og hafði greitt tæpa tvo milljarða – tvö þúsund milljónir króna – með rekstrinum síðasta áratuginn eða svo. Það kemur því kannski ekki á óvart að nýr rekstraraðili sjái sig tilneyddan að grípa til ýmissa ráða til að dæmið geti gengið upp fyrst ríkið virðist ekki ætla að greiða meira með hjúkrunarheimilum í landinu.“
Óttaðist þú ekki, eða grunaði, að þetta myndi gerast þegar samið var við einkafyrirtæki um rekstur heimilanna?
„Að sjálfsögðu óttaðist ég að þetta gæti gerst og hefði í raun verið sama hver hefði tekið við rekstrinum því þessi rekstur gengur því miður ekki upp að óbreyttu. Ríkið verður að fjarmagna þennan málaflokk miklu betur því auðvitað á gamla fólkið okkar allt það besta skilið og einnig fólkið sem vinnur við umönnun þess.“
Finnst þér það skipta máli hvort einkafyrirtæki, sveitarfélag eða ríkið sjái um rekstur öldrunarheimila? Telurðu að þjónustan sé sambærileg - jafn góð - hvort sem einkafyrirtæki, sveitarfélag eða ríkið reki öldrunarheimili?
„Ég get alveg viðurkennt að ég átti frekar von á því að Heilbrigðisstofnun Norðurlands tæki við rekstrinum eins og til stóð um tíma en síðan var fallið frá því. Í sjálfu sér held ég að það skipti ekki öllu máli hver rekur hjúkrunarheimilin ef ríkið leggur sómasamlega til rekstrarins. Sveitarfélaginu var ekki stætt á því að halda þessu áfram með þessari gífurlegu meðgjöf sem kemur beint úr vasa útsvarsgreiðenda og verja þannig fjármunum sem ættu að fara í lögbundin verkefni Akureyrarbæjar í verkefni sem ríkinu ber lögum samkvæmt að annast.“
Eftir á að hyggja, telur þú útilokað að SÍ og Akureyrarbær hefðu getað samið á viðunandi hátt fyrir báða aðila?
„Samningaviðræður okkar við SÍ og heilbrigðisráðuneytið stóðu í rúmt ár, voru langar og strangar. Ég held að það hafi verið fullreynt að ekki stæði til af hálfu ríksins að fjarmagna rekstur hjúkrunarheimila í landinu eins og þarf og Akureyrarbær er engan veginn aflögufær eða í stöðu til þess, eftir afar þungan og neikvæðan rekstur bæjarsjóðs í gegnum kófið, að borga fyrir verkefni sem ríkinu ber að sinna lögum samkvæmt.“