Fara í efni
Fréttir

Lionsmenn og Snorri færðu Hlíð 10 gítara

Snorri Guðvarðsson átti hugmyndina að gítargjöfinni. Hann spilaði og söng á Hlíð í dag ásamt fleirum. Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson

„Þessir gítarar eru svo sannarlega búbót!“ sagði Bryndís Björg Þórhallsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur, við hátíðlega afhendingarathöfn á Heilsuvernd Hjúkrunarheimili, Hlíð, í dag. Að frumkvæði Snorra Guðvarðarsonar tónlistarmanns og góðvinar Hlíðar, voru tíu Fender-gítarar frá Tónabúðinni afhentir hjúkrunarheimilinu að gjöf í dag.

Lionsmenn í Hæng bitu á agnið

„Ég hafði heyrt af því svona útundan mér að aðstandendur og gestir á heimilinu hefðu nefnt að það vantaði alveg gítara sem væri hægt að grípa í,“ segir Snorri við blaðamann Akureyri.net eftir athöfnina. „Ég greip þetta og fór að vinna í því að finna styrktaraðila sem myndu vilja hjálpa mér við að útvega gítara og það voru Lionsmenn í Hæng sem bitu á agnið!“

Það var vel mætt í salinn á Hlíð, bæði af íbúum, notendum í dagþjálfun og starfsfólki þegar gítararnir voru afhentir. Snorri hóaði saman gítarspilandi fólki úr ýmsum áttum og saman spiluðu tíu manns á nýju gítarana, undir hressilegum söng viðstaddra.

Hálf milljón í gítarstyrk

Hverjum gítar fylgir nótnastatíf, nýjir strengir og tæki til að stilla gítarinn – svokallaður tuner. Pakkinn kostar 50.000 frá Tónabúðinni þannig að glöggir lesendur sjá að styrkur Lionsklúbbsins er hálf milljón fyrir tíu gíturum. Fyrir tveimur árum síðan fékk Lögmannshlíð fimm gítara frá Lionsklúbbnum, líka að tilstuðlan Snorra.

Nú skal spilað!

Með tilkomu tíu gítara er hægt að leyfa hverju heimili á Hlíð að njóta þess að hafa sinn eigin gítar. Húsumsjón heimilisins hafði séð um að setja upp veggfestingar fyrir hljóðfærin og þegar afhendingarathöfn var lokið var þeim komið fyrir á sýnilegum stað á dagstofum hvers heimilis. „Nú getur hver sem er, íbúi, gestur, starfsmaður eða hvað veit ég, gripið gítarinn af veggnum og vakið gleði með svolítilli söngstund eða spileríi,“ segir Snorri.

Nokkrir Lions félagar á fremsta bekk. Þeir komu færandi hendi í dag.