Fara í efni
Fréttir

Öruggur sigur SA gegn Hafnfirðingum

Kanadíski markvörður SA, Tyler Szturm, var í sviðsljósinu í leiknum í kvöld. Hann varði 35 af 36 skotum sem hann fékk á sig, átti stoðsendingu og fékk tveggja mínútna refsingu undir lok leiksins. Hann fór þó ekki út af heldur tók liðsfélagi hann út refsinguna.

Karlalið Skautafélags Akureyrar vann öruggan sigur í fyrstu viðureign liðsins við lið Skautafélags Hafnarfjarðar þegar liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Leikurinn telst hafa verið heimaleikur Hafnfirðinga þó spilað hafi verið á Akureyri, en Hafnfirðingar eiga ekki skautasvell til að spila heimaleiki sína á.

Með sigrinum færði SA sig upp í 2. sæti Íslandsmóts karla, Toppdeildarinnar. Á toppnum er SR með 15 stig úr sjö leikjum, þá SA með 12 stig úr sex leikjum, Fjölnir með 11 stig úr sjö leikjum og Hafnfirðingar á botninum með eitt stig eftir sex leiki.

Það er ekki á hverjum degi sem markvörður í íshokkí á stoðsendingu, en það kom þó fyrir í leik kvöldsins þegar SA-menn voru einum fleiri og SFH sendi pökkinn út úr varnarsvæði sínu fram svellið þar sem Tyler tók við honum og sendi rakleiðis upp vinstra megin á Gunnar Arason og Gunnar skoraði af öryggi. Markið má sjá í spilaranum hér að neðan:

Helstu tölur úr leiknum:

SFH

Mörk/stoðsendingar: Björn Sigurðarson 1/0, Gunnlaugur Guðmundsson 0/1.
Varin skot: Radek Haas 45 (88,2%).
Refsimínútur: 16.

SA

Mörk/stoðsendingar: Hafþór Andri Sigrúnarson 2/0, Gunnar Aðalgeir Arason 1/2, Andri Már Mikaelsson 1/1, Pétur Sigurðsson 1/0, Marek Vybostok 1/0, Unnar Hafberg Rúnarsson 0/2, Björn Már Jakobsson 0/1, Jóhann Már Leifsson 0/1, Halldór Skúlason 0/1, Andri Freyr Sverrisson 0/1, Tyler Szturm 0/1.
Varin skot: Tyler Szturm 35 (97,2%). 
Refsimínútur: 18.

Upptöku af leiknum má skoða í spilaranum hér að neðan: