„Ögrandi að takast á við svona stórt verkefni“
Útilistaverk eftir listakonuna Brynhildi Þorgeirsdóttur hefur verið sett upp við fiskvinnsluhús Samherja hf. á Dalvík. Verkið nær yfir þrjú beð og myndar eina heild sem ber titilinn Landslag. Brynhildur segir líklega einsdæmi að einkafyrirtæki láti gera eins viðamikið listaverk og Landslag er.
Hvalbak þungamiðja verksins
„Brynhildur Þorgeirsdóttir hefur á löngum ferli sínum sem listakona skapað sitt eigið steinaríki og verk hennar eru í flestum söfnum landsins auk safna í ýmsum löndum austan og vestan hafs. Hún vinnur mikið með sandsteypt gler sem lýtur sömu lögmálum og hraunrennsli og eru verkin oftast lífrænir skúlptúrar, sem bera sterk einkenni höfundar,“ segir á vef Samherja. „Brynhildur leitar gjarnan til japanskrar garðamenningar við gerð útilistaverka sinna en þar er lögð áhersla á að skapa jafnvægi og kyrrð, þar sem grunnurinn byggir á formi þríhyrnings og píramíta.“
Hvalbak kemur ítrekað fyrir í listsköpun Brynhildar. „Hvalbak er í jöklafræði klöpp, sem skriðjökull hefur sorfið þannig að hún líkist helst baki á hval. Hvalbak er einmitt þungamiðjan í nýja útilistaverkinu á Dalvík.“
Stærra en til stóð í upphafi
„Ég er komin með um fjörutíu ára starfsreynslu, þannig að reynslubankinn er orðinn nokkur digur, skulum við segja,“ segir Brynhildur er hún var spurð um þetta nýjasta listaverk sitt.
„Á teikningum fiskvinnsluhússins gerir Fanney Hauksdóttir arkitekt ráð fyrir útilistaverki og það var síðan Helga Steinunn Guðmundsdóttir, sem er í stjórn Samherja hf., sem hafði samband við mig og óskaði eftir minni aðkomu að gerð útilistaverks sem á endanum varð reyndar mun stærra og umfangsmeira en til stóð í upphafi. Það er ögrandi að takast á við svona stórt verkefni utanhúss og á vel við mig, enda má segja að ég hafi alla tíð verið tengd landslagi í minni listsköpun. Við þrjár náðum strax vel saman og útkoman er sem sagt að líta dagsins ljós þessar vikurnar.“
Melgresi úr sjávarkambinum
Útilistaverkið nær yfir þrjú beð við fiskvinnsluhúsið og inniheldur þrjú fjöll, sjö steina, klett og sex form sem þakin eru melgresi, sem óx skammt frá húsinu. Saman mynda þessi listaverk eina heild.
„Hryggjarstykkið í listaverkinu er hvalbak, ljós skúlptúr sem brýst upp úr steinöldunni og stefnir í suðaustur og á haf út. Hvalbakið fæðir svo af sér lögun melgresisformana. Fjöllin sem eru nokkuð áberandi eru sett saman úr átta einingum og tindarnir eru úr plastefni, ljós kviknar svo á þeim er skyggja tekur. Steinabeðið við inngang hússins sem rammar sig inn með fíngerðari möl er einskonar skrautbeð í þessum skúlptúrgarði en steinarnir þar eru steyptir í sandmót með sömu aðferð og gler er steypt í sand og innfelld í steinana eru form úr plastefni. Í beðunum vex einungis ein gróðurtegund, sem er melgresi, en það á sér langa og merkilega sögu hér á landi. Starfsmenn Steypustöðvarinnar á Dalvík sáu um alla jarðvinnu og aðstoðuðu mig við að hlaða upp sandformin, melgresið var tekið í sjávarkambinum skammt frá sjálfu fiskvinnsluhúsinu. Útkoman er lifandi mynd sem á eftir að vaxa og dafna hérna, en auðvitað þarf að hugsa vel um melgresið og hjálpa því að róta sig í manngerðum sandhólunum. Samstarfið við starfsmenn Steypustöðvarinnar á Dalvík var einstakt og sömuleiðis var allt starfsfólk fiskvinnsluhússins alltaf boðið og búið til að rétta fram hjálparhönd.“
Nánar um verkið og fleiri myndir hér