Oftast sólarmegin í 1.000 daga
Kominn er að kvöldi eitt þúsundasti dagurinn sem undirritaður hefur ritstýrt Akureyri.net. Það var föstudaginn 13. nóvember árið 2020 að frétta- og mannlífsvefur með þessu góða nafni birtist lesendum í núverandi mynd, eftir að lénið hafði legið í dvala um hríð.
Alla tíð hefur áhersla verið lögð á að birta fjölbreytt, vandað og skemmtilegt efni á hverjum einasta degi. Átta greinar hafa birst á dag að meðaltali frá upphafi.
Slagorð fjölmiðilsins er oftast sólarmegin og það er haft í heiðri þegar mögulegt er – oftast.
- Í maí á þessu ári voru gestir Akureyri.net 65.872 og hafa aldrei verið fleiri. Þar er um að ræða fjölda IP-talna og hver þeirra talin einu sinni, sama hve oft viðkomandi fór inn á vefinn í mánuðinum. Flettingar voru tæplega 1,4 milljónir.
Íbúar Akureyrar eru 20.000 og mjög margir lesendur því annars staðar í veröldinni en í höfuðstað Norðurlands og næsta nágrenni.
Heimsóknir á dag eru rúmlega 8.000. Síðustu fjórir mánuðir eru þeir bestu í sögu Akureyri.net. Fjöldi gesta/IP-talna er þessi:
- Apríl 2023 – 58.218
- Maí 2023 – 65.872
- Júní 2023 – 65.658
- Júlí 2023 – 65.659
Aðgangur að Akureyri.net er ókeypis enn sem komið er og fjölmiðillinn er rekinn fyrir auglýsingafé og styrki.
Fjöldi fólks greiðir fasta upphæð mánaðarlega til að styðja við reksturinn og fyrir það er undirritaður afar þakklátur.
- Vilji fleiri hjálpa til er hægt að smella HÉR en einnig er hægt að senda póst á skapti@akureyri.net með nafni, kennitölu og upplýsingum um hve mikið viðkomandi vill greiða á mánuði.
Ákveðið var á sínum tíma að stökkva ekki af stað með óþarflega miklum lúðrablæstri og eiga á hættu að gefast upp innan tíðar. Það var gæfuspor því sígandi lukka er best og lesendum hefur fjölgað jafnt og þétt. Lestur var töluverður fyrstu vikurnar en aðsókn á vefinn nú er í einu orði sagt stórkostleg.
Akureyri.net fylgist sem fyrr grannt með Akureyringum nær og fjær, birtir allar hefðbundnar fréttir, margskonar mannlífs- og menningarefni, og fjallar mikið um íþróttir. Birtar eru minningargreinar og aðrar aðsendar greinar þar sem lesendur tjá sig um hvaðeina, pistlahöfundar leggja vefnum reglulega til afbragðs efni og ljósmyndir hafa alltaf skipað mikilvægan sess.
Áfram gakk og áfram Akureyri!
ÞÚSUND ÞAKKIR!
Skapti Hallgrímsson,
ritstjóri