Fara í efni
Fréttir

Niceair: Helgi stýrir sölu- og markaðsstarfi

Helgi Eysteinsson hefur gengið til liðs við Niceair og er ætlað að stýra uppbyggingu á sölu- og markaðsstarfi félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Helgi hefur komið víða við í íslenskri ferðaþjónustu. Hann var framkvæmdastjóri Iceland Travel og VITA, dótturfélaga Icelandair Group á árunum 2008-2013 og hefur á undangengnum árum starfað á Íslensku auglýsingastofunni þar sem hann vann að ráðgjöf, uppbyggingu vörumerkja og markaðsfærslu fyrir mörg af sterkustu vörumerkjunum í íslenskri ferðaþjónustu. Auk þess hefur Helgi verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjölmörgum ferðatengdum verkefnum.

Gríðarlega spenntur

„Ég er gríðarlega spenntur fyrir verkefninu og heillaðist strax af kraftinum og frumkvöðlaandanum sem ég fann hjá stofnendum félagsins. Undirbúningur starfseminnar er vandaður og hluthafahópurinn er breiður og traustur. Það verður virkilega gaman að hefjast handa við að kynna starfsemina og vörumerkið fyrir viðskiptavinum á markaðssvæði félagsins á norður- og austurlandi og ekki síður að fá tækifæri til að kynna umheiminn fyrir þessari aðgengilegu gátt að töfrandi perlum norðurlands og þjónustu þeirra fjölmörgu öflugu ferðaþjónustuaðila sem þar starfa,“ segir Helgi í tilkynningu.

Margvíslegir möguleikar

„Það er sannarlega ánægjulegt að hafa fengið Helga til liðs við okkur í þetta stóra og metnaðarfulla verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Helgi býr yfir gríðarlegri reynslu af uppbyggingu sölu- og markaðsstarfs, vörumerkjastjórnun og stofnun fyrirtækja í ferðaþjónustu. Sú reynsla mun vafalaust nýtast okkur vel í kynningu og uppbyggingu á vörumerkinu og öllum þeim verkefnum sem við okkur blasa við stofnun félagsins,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair.

„Niceair er nýtt flugfélag sem hefur sig til flugs frá Akureyri og flýgur beint til Kaupmannahafnar, London og Tenerife fyrst um sinn. Félagið hóf sölu á flugmiðum í gær og hafa viðtökur verið vonum framar. Nýju flugleiðirnar koma til með að opna margvíslega möguleika bæði fyrir íbúa Norður- og Austurlands og erlenda ferðamenn og fela þær ekki síður í sér fjölmörg tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.

„Beint flug til Akureyrar gerir ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að bjóða viðskiptavinum sínum nýja þjónustu, til að mynda styttri og ódýrari pakkaferðir um Norður- og Austurland, ferðir sem leggja áherslu á sérstöðu náttúru og menningar á svæðinu og ferðir með áherslu á minna troðnar slóðir og íslenskar náttúruperlur sem heimurinn á enn eftir að uppgötva.“

Vel fjármagnað

„Niceair er vel fjármagnað félag með öfluga bakhjarla. Breiðsíða fyrirtækja, einstaklinga og stofnana á Norðurlandi hefur flykkt sér að baki félaginu, en KEA, Höldur, Kaldbakur, Norlandair, Armar, Ferðaskrifstofa Akureyrar, Norðurböð, brugghúsið Kaldi, Kælismiðjan Frost og fleiri félög eru meðal hluthafa. Enginn hluthafa er áberandi stór og enginn er yfir 6,5%“

Höfuðstöðvar og heimahöfn Niceair eru á Akureyri og kappkostar félagið að manna stöður og eiga í náinni samvinnu við fólk og fyrirtæki á svæðinu, að því er segir í tilkynningunni.