Fara í efni
Fréttir

Náði fyrirtækið betri samningi en bærinn?

Björn Valur Gíslason, sjómaður og fyrrverandi þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, telur bæjarstjórn Akureyrar þurfa að útskýra langvarandi halla á rekstri Öldrunarheimila Akureyrar betur en gert hefur verið, og hvernig það gat gerst að bærinn missti tök á rekstrinum. Svör til þessa séu ekki fullnægjandi. Hann ritar grein sem birtist á Akureyri.net í dag.

Nýverið var tilkynnt að Sjúkratryggingar Íslands hefðu samið við Heilsuvernd hjúkrunarheimili ehf. um að taka að sér reksturinn í kjölfar þess að Akureyrarbær sagði upp samningi við SÍ. Bærinn hefur greitt mörg hundruð milljónir króna með rekstrinum undanfarin ár.

„Það vekur furðu mína að einkafyrirtæki, þar sem arðsemissjónarmið ráða för, hafi tekist að semja með hagkvæmari hætti við Sjúkratryggingar Íslands en Akureyrarbær treysti sér til. Þar ráða þó önnur lögmál um slíkan rekstur en hagnaðarsjónarmið. Hvað gerði það að verkum að einkafyrirtæki nær betri samningum um rekstur ÖA en Akureyrarbær? Hvernig sér fyrirtækið fyrir sér að ná arðsemi úr rekstri öldrunarheimilanna sem Akureyrarbær treysti sér ekki til að reka á sléttu?“ segir í greininni.

Smellið hér til að lesa grein Björns Vals