Fara í efni
Fréttir

Lostafullur Samúel og Vinens verden

Fjölsmiðjufössari #1. Myndir: Rakel Hinriksdóttir

Á föstudögum í vor langar okkur á Akureyri.net að hressa okkur við fyrir helgina og birta myndaþátt af því besta sem er í boði í Fjölsmiðjunni. Eins og flestir bæjarbúar vita, kennir þar ýmissa grasa og mörg höfum við farið þangað með dótið sem við erum hætt að nota. En hvað er í boði þennan ágæta Fjölsmiðju-fössara?

Stór stafli af hinu djarfa tímariti Samúel er á boðstólnum í dag. Það átti sín gullaldarár árin 1973-1994 og eflaust mörg sem muna eftir Samúel, og nú er hægt að skunda í Fjölsmiðjuna ef það vantar tölublöð í safnið. Hér er stutt grein á Glatkistunni um tímaritið, fyrir áhugasöm. 

Það er nóg til af Samúel! 

Ef einhver missti af því að eignast geisladiskinn „Ég sé Akureyri“, sem kom út á 150 ára afmælisári bæjarins, er tækifærið komið. Fjölmörg eintök eru til, enn í plastinu. Skyldueign fyrir Akureyringa. 

Stríðsáhugafólk getur fundið þessar veglegu bækur um Heimsstyrjöldina síðari. Kannski hægt að grípa einn Samúel og eina stríðsbók fyrir helgina. 

Danirnir kunna að búa til borðspil. Þetta spil er flott fyrir áhugafólk um vín og gæti verið punkturinn yfir i-ið í veislu helgarinnar. Athugið: Vínið sjálft er ekki innifalið!

Skål!! 

Þarf ekki einhver að eiga VHS til að taka upp Leiðarljós? 

Vínylgeggjarar Akureyrar ættu ekki að bíða boðanna og hendast í Fjölsmiðjuna. Margir tugir nýrra vínylplatna, reyndar í misgóðu ástandi eins og gengur, eru lentar í versluninni. Margir flottir titlar. 

Langar þig að lesa Krúnuleikana (Game of Thrones) ? Þessir ævintýralegu doðrantar bíða þín í Fjölsmiðjunni. 

Þessi glæsilega hárþurrka frá AEG virkar enn, gaman væri að heyra hvort lesendur viti hvað hún gæti verið gömul? Gullfallegt tæki.

Síðast en ekki síst. Ef einhver hefur hugsað sér að vera í fýlu um helgina, væri þessi flottur félagsskapur. 

Þökkum Fjölsmiðjunni kærlega fyrir að opna dyrnar fyrir blaðamanni, og hvetjum fólk til þess að halda áfram að styrkja það góða starf sem þar fer fram. Í leiðinni viljum við minna á hina nytjamarkaðina í bænum, Hertex, markað Rauða krossins og Norðurhjálp. Endurnýtum og styrkjum gott málefni í leiðinni. Góða helgi!